Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Robertson fór á kostum í Röstinni
Miðvikudagur 19. desember 2007 kl. 22:43

Robertson fór á kostum í Röstinni

Keflvíkingar endurheimtu toppsætið í Iceland Express deild kvenna í kvöld þökk sé Grindvíkingum sem lögðu nýliða KR 86-84 í miklum spennuleik í Röstinni í Grindavík. Keflavík hafði öruggan 100-81 sigur á Hamri í Sláturhúsinu og eru því að nýju komnar á topp deildarinnar. Tiffany Robertson fór hamförum í liði Grindavíku með 39 stig, 26 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot.

 

Leikur Grindavíkur og KR var hin besta skemmtun þar sem leikinn var hraður bolti og grimm vörn þar sem leikmenn voru ekki feimnir við að næla sér í villur. Þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka átti Monique Martin möguleika á því að stela sigrinum fyrir KR með þriggja stiga skoti. Martin féll við í skotinu en dómarar leiksins sáu ekkert athugavert við varnarleik Grindavíkur og því var engin villa dæmd og sigurinn féll Grindavíkurmegin. Hefðu þeir dæmt villu hefði Martin átt þrjú vítaskot en ekkert varð af þeim.

 

Mikið fjör var í leik liðanna strax í upphafi þar sem gestirnir komust í 8-15 en Grindavík jafnaði svo metin í 17-17 eftir að Joanna Skiba braust í gegnum vörn KR, lagði boltann í netið og fékk villu að auki. Guðrún Þorsteinsdóttir lék grimma vörn í upphafi leiks á Skibu en Guðrún lenti snemma í villuvandræðum. Fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 25-26 KR í vil þar sem Grindavík gerði fjögur síðustu stig leikhlutans.

 

Petrúnella Skúladóttir opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og kom Grindavík í 28-26 og voru liðin stál í stál alveg fram að leikhléi. KR hafði þó yfirhöndina og leiddi í hálfleik 50-52.

 

Hildur Sigurðardóttir fékk snemma í þriðja leikhluta sína þriðju villu hjá KR og gestirnir náðu yfirhöndinni lítið eitt og leiddu 68-73 fyrir fjórða leikhlutann. Grindavík varð þó fyrir nokkrum skakkaföllum þegar Ólöf Helga Pálsdóttir fékk sína fimmtu villu í lok þriðja leikhluta og varð frá að víkja.

 

Þegar líða tók á fjórða leikhluta settu Grindvíkingar í lás í vörninni og nýliðum KR gekk illa að brjóta sér leið upp að körfunni. Grindavík komst í 83-77 en KR gerði vel og minnkaði muninn í 86-84. Lokasókn Grindavíkur skilaði ekki stigum og því gátu KR-ingar jafnað leikinn eða unnið með þriggja stiga körfu. Ellefu sekúndur voru til leiksloka þegar KR hélt í sókn og það kom í hlut Monique Martin að taka lokaskotið.

 

Martin tók erfitt skot og virtist missa jafnvægið í skotinu en dómarar leiksins töldu að ekki hefði verið um brot að ræða en ef svo hefði verið hefði Martin fengið þrjú vítaskot. Engin villa og Grindvíkingar fögnuðu spennusigri sínum með því að jafna KR að stigum.

 

Eins og áður greinir fór Tiffany Robertson á kostum í kvöld en næst henni í Grindavíkurliðinu var Joanna Skiba með 20 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst. Hjá KR var Monique Martin með 37 stig, 14 fráköst, 5 stolna bolta og þrjár stoðsendingar.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Mynd/ [email protected]Robertson setur niður 2 af 39 stigum sínum í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024