Rita Williams tryggði Grindvíkingum sigur
Grindavíkurstúlkur sigruðu Hauka í Röstinni í kvöld, 71-70, í taugaþöndum leik. Staðan í einvíginu er því 1-0 Grindvíkingum í vil. Rita Williams átti stórleik í kvöld og innsiglaði sigur Grindavíkur þegar leiktíminn var liðinn, það gerði hún af vítalínunni og fögnuðu Grindavíkurstúlkur sigrinum vel og innilega.
Bæði lið voru frekar mistæk í upphafi leiks og voru að tapa mörgum boltum, Rita Williams var kannski einum of áköf í vörninni hjá Grindavík og fékk dæmdar á sig tvær villur í 1. leikhluta. Liðin prófuðu mörg varnarafbrigði á hvort annað í kvöld, bæði 2-3 og 3-2 svæðisvörn ásamt mismunandi pressuvörnum. Staðan að loknum 1. leikhluta var 19-17 Grindvíkingum í vil.
Í öðrum fjórðungi hitnaði Rita Williams til muna og setti hún niður sex þriggja stiga körfur í fyrri hálfleik. Í bland við skelfilegan kafla frá Haukastúlkum náði heimaliðið mest 19 stiga forystu, 38-19. Gestirnir réttu þó sinn hlut fyrir hálfleik og fóru liðin til búningsklefanna í stöðunni 44-32.
Grindavíkurstúlkur vilja sennilegast gleyma 3. leikhluta sem fyrst en í honum skoruðu þær einungis níu stig á móti 21 stigi Hauka. Fór Ebony Shaw fyrir þeim rauðu ásamt þéttri liðsvörn. Haukar náðu því að minnka muninn niður í 2 stig fyrir síðasta leikhlutann, 53-51.
Upphaf 4. leikhluta var jafn slakt hjá Grindvíkingum og allur 3. leikhlutinn, bitlausar sóknaraðgerðir og slakar sendingar settu strik í reikninginn. Haukar náðu að breyta stöðunni í 53-61 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Grindvíkingar settu þá í 5. gír og jöfnuðu leikinn 61-61. Þegar hér er komið við sögu er brotið óíþróttamannslega á Ólöfu Helgu í liði Grindavíkur og virtist það gefa heimaliðinu þann kraft sem þurfti til að ljúka leiknum. Grindavík skoraði sex stig í röð og staðan 67-61. Þegar 14 sekúndur voru til leiksloka var staðan 70-67 fyrir Grindavík og Haukar í sókn, Ebony Shaw tók þriggja stiga skot en það geigaði. Brotið var á Ebony í skotinu og hitti hún úr öllum sínum skotum af vítalínunni og jafnaði leikinn 70-70, sallaróleg. Hér voru aðeins 4 sekúndur til leiksloka og gerðu Haukar þau mistök að brjóta á Ritu Williams um leið og leiktíminn rann út en Grindvíkingar voru þegar komnir með skotrétt. Rita fór því á línuna, brenndi af fyrra skotinu og mikil spenna í loftinu, hún hitti þó úr seinna skotinu og tryggði Grindvíkingum sigur, 71-70.
Rita Williams fór fyrir Grindvíkingum og gerði 32 stig í leiknum, Svandís Sigurðardóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir áttu einnig fínan leik. Ebony Shaw var atvkæðamest í liði Hauka með 25 stig en á eftir henni kom Helena Sverrisdóttir með 18 stig og Kristín Sigurjónsdóttir með 16 stig.
Henning Henningsson, þjálfari Grindavíkurliðsins, hafði þetta um leikinn að segja: „Ég var að sjá karakter hjá liðinu í kvöld sem ég hef ekki verið að sjá í vetur og við náðum að vinna upp forskot sem Haukar höfðu náð og það gera ekki öll lið á móti Haukum. Það verður spennandi að fara að Ásvöllum en við þurfum að ná að stilla okkur af fyrir næsta leik því við erum að spila of rokkandi,“ sagði Henning í samtali við Víkurfréttir í kvöld.
Liðin mætast næst að Ásvöllum sunnudaginn 20. mars og hefst leikurinn kl. 19:15.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ Héðinn Eiríksson
Texti: [email protected]