Rimma í Röstinni
Félagarnir Teitur Örlygsson og Friðrik Ragnarsson mætast í kvöld í sínum fyrsta leik á Íslandsmóti sem þjálfarar. Kapparnir sem áður rökuðu inn verðlaunum með Njarðvíkingum eru nú þjálfarar Grindavíkur og Njarðvíkur. Grannaliðin mætast í Röstinni í kvöld kl. 19:15 í Iceland Express deild karla en þetta er fyrsta rimma liðanna á tímabilinu. Með sigri í kvöld geta Njarðvíkingar jafnað Grindavík að stigum en Grindvíkingar eiga enn leik til góða á Njarðvík. Eins og Friðrik sagði, þetta er fjögurra stiga leikur.
,,Við getum hrist þá aðeins af okkur með sigri en ef Njarðvík vinnur komast þeir betur inn í toppbaráttuna,” sagði Friðrik þjálfari Grindavíkur. ,,Við höldum bara okkar skipulagi og sjáum enga ástæðu til þess að breyta út af því í kvöld og það stendur ekkert annað til en að hafa spennuleik,” sagði Friðrik en síðustu rimmur þessara liða hafa jafnan verið miklar spennurimmur. ,,Liðin eru svipuð að getu en Njarðvíkingar eru með mannskap sem á að vera í toppbaráttu og ég á von á því að þessi leikur ráðist ekki fyrr en í blálokin,” sagði Friðrik en hvað þurfa gulir helst að varast? ,,Við þurfum að passa Brenton. Hann er lykillinn í þeirra leik. Ef gamli kallinn er heitur eru þeir erfiðir en ef okkur tekst að hægja á honum er þetta hægt.”
Teitur Örlygsson hefur líkast til ekki fengið þá byrjun sem hann óskaði eftir í þjálfarastól Njarðvíkinga en hann segir sína menn staðráðna í því að komast ofar í töfluna.
,,Við verðum að leika vel saman sem lið því þetta eru jafnan hörkuleikir og ég býst ekki við neinu öðru í kvöld,” sagði Teitur en Njarðvíkurliðið hefur leikið 10 leiki, unnið sex og tapað fjórum þetta tímabilið. ,,Grindavík er með frábært byrjunarlið og við þurfum að vera tilbúnir og leika góðan varnarleik. Bæði lið hafa frábæra sóknarmenn og við þurfum að láta Grindavík hafa vel fyrir öllum sínum stigum en það lið vinnur leikinn sem spilar betri varnarleik.”
Það er því von á stórleik í Röstinni í Grindavík í kvöld og ekki úr vegi að gera sér ferð á leikinn og sjá tvö af toppliðum landsins berjast um tvö mikilvæg stig í deildinni.