Reynslusigur hjá Keflavík gegn Snæfelli - 1:0
Keflavíkurstúlkur unnu reynslusigur á liði Snæfells í fyrsta umspilsleik liðanna í Iceland Express deildinni í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Eftir hnífjafnan leik knúðu Keflvíkingar fram sigur á síðustu mínútunum. Lokatölurnar 95-82 sýna ekki rétta mynd af gangi leiksins sem var mjög skemmtilegur.
„Það var eitthvað vanmat hjá okkur og Snæfell kom okkur á óvart með gríðarlegri baráttu og góðum leik. Við urðum að halda haus sem við gerðum allan leikinn þó þetta hafi verið erfiðara en við áttum von á. Það hefur vantað upp á andlegan styrk í leik okkar að undanförnu en nú var hann til staðar og við kláruðum verkefnið,“ sagði Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir eftir leikinn.
Það áttu eflaust flestir von á auðveldari sigri Keflavíkur en stúlkurnar úr Hólminum voru á allt annarri skoðun og áttu í fullu tré við lið heimamenn. Jafnt var á liðunum í fyrsta leikhluta og heimaliðið leiddi aðeins með tveimur stigum 30-28 og eins í leikhlé 52-50. Fór um marga áhagendur Keflavíkur því Hólmarar sýndu mikla baráttu. Bryndís Guðmundsdóttir átti frábæran leik. Hún byrjaði með miklum látum og skoraði 22 stig í fyrri hálfleik fyrir Keflavík en hjá Hólmurum fór Sherell Hobbs á kostum og skoraði 19 stig. Varnir voru ekki upp á það besta sem sést vel á skorinu.
Í þriðja leikhluta var áfram jafnt á með liðunum og staðan 67-66 þegar sjá fjórði byrjaði. Snæfell komst í 69-72 en þá var eins og besnínið væri búið hjá stúlkunum hans Inga og Keflavík með Ranveigu Randersdóttur í miklu stuði seig fram úr. Rannveig vann boltann bæði í vörn og í sókn nokkrum sinnum og bætti um betur með því að klára nokkrar sóknir með góðum stigum. Henni til hjálpar voru Birna, Bryndís, Pálína og Kristi Smith og á síðustu fimm mínútunum kom styrkleiki og meiri breidd Keflvíkinga vel í ljós. Þær skoruðu næstu ellefu stig og breyttu stöðunni úr 69-72 í 80-72. Hólmarar voru þó ekki á því að lýsa sig sigraða og minnkuðu muninn í 3 stig þegar 3 mínútur voru til leiksloka með þriggja stiga körfu Hobbs hér um bil frá miðju vallarins. Keflvíkingar létu það ekki slá sig út af laginu og áttu lokakaflann skuldlausan og innbyrtu sigur 95-82.
Stigahæstar hjá Keflavík voru Bryndís með 32 stig sem átti sinn besta leik í vetur og var alveg frábær í leiknum, Birna I. Valgarðsdóttir var mjög traust með 20 stig, Kristi Smith skoraði 19, Pálina 12 stig og er óðum að ná fínu fyrra formi og loks Rannveig sem kom skemmtilega á óvart. Hún skoraði 8 stig, tók 9 fráköst og átti margar sendingar á liðsfélaga sína þegar mikið reið á í síðari hálfleik.
Stúlkrnar úr Hólminum komu eins og fyrr segir gríðarlega á óvart með mikilli baráttu og líka góðum leik. Þær eru reyndar mikið háðar hinni frábæru Sherrel Hobbs sem skoraði 32 stig en þær Unnur Lara Ásgeirsdóttir, 12 stig og Gunhildur Gunnarsdóttir sem skoraði 10 stig komu henni til hjálpar í baráttunni við sterkt lið Keflavíkur sem og fleiri efnilegir leikmenn liðsins. Greinilegt að Ingi Þór Steinþórsson er að gera góði hluti með bæði kynin fyrir vestan.
Næsti leikur liðanna er í Hólminum og ef Snæfell leikur af sama krafti og í kvöld er ljóst að Keflavík þarf á öllu sínu að halda til að innbyrða sigur. Birna Valgarðs játti því í viðtali eftir leikinn og sagði að Keflavík þyrfti að eiga 110% leik til að klára dæmið í næsta leik.
Mynd til hægri: Ingi Snæfellsþjálfari fékk tæknivíti fyrir dómararöfl á krítískum tíma í lokin og hjálpaði ekki til þegar hans dömur voru í harðri baráttu undir lokin.
Pálína einbeitt í leiknum í kvöld. Hér að neðan skorar hún tvö af tólf stigum sínum í leiknum. Hún nálgast ófluga sitt fyrra form.
Sherrell Hobbs er gríðarlega öflugur leikmaður. Hér er hún í baráttu við Birnu Valgarðsdóttur sem átti mjög góðan leik hjá Keflavík.
Rannveig Randversdóttir átti frábæra innkomu í síðari hálfleik og hér skorar hún tvö af átta stigum sínum.
Mikil barátta undir körfunni. Á neðri myndinni skorar Pálína Gunnlaugsdóttir flotta körfu. VF-myndir/pket.