Reynismenn völtuðu yfir KV
Treysta stöðu sína á toppi deildarinnar
Reynismenn, sem eru taplausir á toppi 3. deildar karla í knattspyrnu, tóku á móti KV í kvöld á Blue-vellinum í Sandgerði. KV, sem situr í öðru sæti deildarinnar, var fimm stigum á eftir Reyni.
Leikurinn hófst fjörlega en það voru Vesturbæingar sem skoruðu fyrsta markið á 2. mínútu. Reynismenn voru ekki lengi að jafna metin, þar var Ante Marcic að verki á 5. mínútu.
Aðeins þremur mínútum síðar kom Magnús Sverrir Þorsteinsson boltanum í net KV og staðan orðin 3:1 Reynir í vil, þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í síðari hálfleik bætti Magnús öðru marki við og ljóst að Reynismenn væru að treysta stöðu sína á toppi deildarinnar með frammistöðu sinni í kvöld.
KV náði að króra í bakkann á 4. mínútu uppbótartíma og minnka muninn í 4:2 en Reynir fékk dæmda vítaspyrnu á lokamínútu leiksins og úr henni skoraði Hörður Sveinsson (90'+5).
Lokatölur leiksins urðu því 5:2 fyrir Reyni sem hefur aukið forystu sína í átta stig á toppi 3. deildar og allar líkur benda til að þeir muni leika í 2. deild á næsta tímabili. Þess má þó geta að KV á einn leik til góða.
Tveir nýir leikmenn skipuðu hóp Reynismanna í dag. Halldór Kristinn Halldórsson skipti yfir í Reyni fyrir nokkrum dögum og var í byrjunarliði í kvöld, þá hefur gamla brýnir Sigurbergur Elísson ákveðið að taka fram skóna að nýju, hann byrjaði á bekknum en var skipt inná í seinni hálfleik.
Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, lét sig ekki vanta á Blue-völlinn í kvöld og hann tók myndir sem má sjá í myndasafninu sem fylgir fréttinni.