Reynismenn unnu grannaslaginn gegn Víði
Í kvöld sigraði Reynir Sandgerði nágranna sína í Víði með tveimur mörkum gegn engu. Leikurinn var hluti af 15. umferðinni í 2. deild karla og fór hann fram á Garðsvelli, heimavelli Víðis. Aðstæður til knattspyrnuiðkunnar voru ekki þær bestu og var mikið rok og rigning allan leikinn. Þrátt fyrir slæmar aðstæður var leikurinn hinn fjörugasti og hart barist. Fyrra mark Reynismanna kom á 75. mínútu og þar var á ferðinni Aron Örn Reynisson en hann kom boltanum í netið eftir að Víðismenn höfðu fengið dæmda á sig aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Tíu mínútum síðar bætti Hafsteinn Ingar Rúnarsson við öðru marki Reynismanan og innsiglaði þar með sigur sinna manna.
Eftir leikinn situr Reynir S. í 5. sæti deildarinnar með 21 stig en Víðismenn í því tíunda með 12 stig. Næstu leikir liðanna fara fram þriðjudaginn 10. ágúst. Þá tekur Reynir Sandgerði á móti Víkingi Ólafsvík en Víðismenn mæta ÍH á Ásvelli, báðir leikirnir hefjast klukkan 19:00.
VF-myndir / Sölvi Logason
.
Hér má finna myndasafn frá leiknum.