Reynismenn tryggðu sig á toppnum
Reynir tryggði stöðu sína á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu með sigri á KS/Leiftri, 4-3, í skemmtilegum leik síðasta laugardag.
Mörkin komu á færibandi í upphafi leiks á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði þar sem Sinisa Valdimar Kekic komst á blað með glæsimarki af 30m færi strax á 5. mínútu. Gestirnir voru fljótir að svara þar sem þeir skoruðu heldur slysalegt mark, en á áttundu mínútu kom fyrirgjöf inn í teiginn sem Aron Elís Árnason, markvörður Reynis, missti af og kvötturinn hafnaði í markinu.
Reynismenn létu þetta hins vegar lítt á sig fá og fyrr en varði voru þeir komnir í 3-1 með tveimur mörkum frá Jóhanni Magna Jóhannssyni. Norðanmenn minnkuðu muninn fljótt og var staðan 3-2 í hálfleik.
KS/Leiftur jöfnuðu svo leikinn í upphafi seinni hálfleiks, en Hjörvar Hermannsson kom Reyni yfir enn á ný á 56. mínútu og þar við sat.
Reynismenn eru nú með sex stiga forskot á toppi deildarinnar, en í öðru sæti er Grótta sem vann öruggan sigur á UMFN sl. föstudag, 3-0.
Þriðja Suðurnesjaliðið í 2. deild, Víðir úr Garði, gerði 1-1 jafntefli við Tindastól í síðasta leik og er enn í 11. sæti, fallsæti, með fjögur stig.
Staðan í 2. deild
Mynd/Jón Örvar