Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynismenn spila í annarri deild á næsta ári
Benedikt Jónsson skorar markið sem kom Reyni yfir. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 1. október 2020 kl. 08:09

Reynismenn spila í annarri deild á næsta ári

Stefna nú á að vinna deildina

Reynir Sandgerði tók á móti Álftanesi á Blue-vellinum í gær í hörkuleik þar sem mikið var í húfi fyrir bæði lið. Álftanes berst fyrir lífi sínu á botni deildarinnar en með sigri tryggðu Reynismenn sér sæti í 2. deild að ári. Fyrri hálfleikur var markalaus en á sex mínútna kafla í byrjun þess síðari gerði Reynir út um leikinn.

Í fyrri hálfleik var vart hægt að sjá að liðin sem ættust við stæðu í baráttu í sitt hvorum enda deildarinnar. Álftanes barðist vel og gaf allt í sölurnar enda í fallsæti, liðið lék ágætlega á sama tíma og Reynismenn virkuðu óöruggir og svolítið til baka. Mikill gæðamunur á liðunum sást þó á sóknarleik liðanna því sóknir heimamanna voru betur útfærðar og sköpuðu meiri hættu en gestanna. Ekkert mark var skorað í frekar jöfnum fyrri hálfleik.

Eftir rúmlega hálftíma leik haltraði markahæsti leikmaður deildarinnar, Magnús Sverrir Þorsteinsson, meiddur af velli og þvi skoraði hann ekki í leiknum. Fyrir vikið er Magnús jafn þeim Todor Hristov úr Einherja og Luke Morgan Conrad Rae úr Tindastóli, allir hafa þeir skorað fimmtán mörk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinni hálfleikur hófst með flugeldasýningu Reynismanna sem skoruðu fyrsta markið á 48. mínútu. Markið kom úr hornspyrnu og var það Benedikt Jónsson sem stökk manna hæst í teignum og skallaði í markið.

Aðeins þremur mínútum síðar (51') var komið að Guðmundi Gunnari Gíslasyni sem var búinn að vera mjög ógnandi vinstri á kantinum. Markið kom úr vel útfærðri skyndisókn Reynismanna þar sem boltinn gekk manna á milli og endaði á sendingu til Guðmundar sem afgreiddi hann með hnitmiðuðu skoti fram hjá markverði gestanna. Sambabolti af bestu gerð.

Á 54. mínútu átti fyrirliðinn Strahinja Pajic góðan sprett upp í hægra hornið og sendi boltann fyrir markið þar sem Fufura Barros fékk boltann. Umvafinn varnarmönnum gerði Barros vel að halda boltanum og ná að snúa sér til að negla boltanum í samskeytin. 3:0 og augljóst að Reynismenn ætluðu sér upp um deild.

Þessar upphafsmínútur seinni hálfleiks slógu leikmenn Álftaness svolítið út af laginu en þó ekki lengi, þeir héldu baráttunni áfram og unnu sig betur inn í leikinn án þess þó að skapa verulega hættu fram á við. Sóknirnar stoppuðu á traustri vörn Reynismanna og góðri markvörslu Andra Más Ingvarssonar í þau skipti sem á hann reyndi. Hann var þó sigraður á 2. mínútu uppbótartíma þegar Álftanes náði að minnka muninn í 3:1 en lengra komust þeir ekki.

Þess má geta að Reynir hefði getað komist í 4:0 þegar Hörður Sveinsson skallaði í mark Álftaness en það markið var dæmt af, vafasamur dómur.

Jóhann Páll Kristbjörnsson var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir og viðtal við Harald Frey Guðmundsson, þjálfara Reynis. Þá má sjá fagn Reynismanna í lokin – taumlaus gleði.

Reynir - Álftanes | 3. deild karla 2020