Reynismenn ósmeykir við 1. deildina
Reynir Sandgerði og ÍG frá Grindavík spiluðu í úrslitakeppni í 2. deild um helgina í Vestmannaeyjum. ÍG komst ekki áfram úr riðli sínum að þessu sinni en Reynismenn fóru frækna ferð og tryggðu sér sæti í 1. deild næsta tímabil.
Reynismenn lentu í öðru sæti í riðli sínum og unnu svo ÍV í undanúrslitum. Reynismenn töpuðu gegn HHF í úrslitaleik en tryggðu sér eins og fyrr sagði þátttökurétt í 1. deid. HHF var eina liðið sem lagði Reyni að velli um helgina því þeir voru einnig með þeim í riðli. Atkvæðamestur í jöfnu liði Reynis um helgina var Ólafur Jónsson með 13,6 stig að meðaltali í leik. Magnús Sigurðsson var með 11,6 stig að meðaltali í leik, Nathan Harvey sem var aðeins meiddur um helgina var með 11,2 stig að meðaltali, Sigurður Gunnarsson 11 stig, Hlynur Jónsson 10,6 og Sigurður Sigurbjörnsson 9,6 stig að meðaltali.
Jón Guðbrandsson, þjálfari Reynismanna var sáttur með helgina og sagði það vera aðal atriðið að komast upp í 1. deild. „Fyrir úrslitaleikinn vorum við bara búnir. HHF lentu á móti HK í undanúrslitum sem höfðu ekki áhuga að fara upp og lentu því í auðveldum leik á sunnudagsmorguninn á meðan að við lendum á móti heimamönnum í ÍV sem ætluðu sér upp og það var hörkuleikur, þannig að við vorum dálítið lúnir í úrslitaleiknum.“ Jón segir næsta vetur leggjast vel í sig og að mannskapurinn mæti tilbúinn í átökin næsta vetur, „Við verðum kannski ekki í toppbaráttunni næsta vetur, það má búast að við verðum næstu tvö árin að búa til lið og svo á þriðja ári er hægt að stefna að einhverju raunhæfu“.
Ljóst er að mikill kostnaður fer í að spila í 1. deild og er þar helsti kostnaður á bakvið ferðalög og dómarakostnað. Jón Guðbrandssson segir erfitt að fá sterka styrktaraðila þar sem þéttsetið er um þá á Suðurnesjum. Reynismenn eiga þó nokkra góða bakhjarla sem hafa stutt við bakið á þeim. Jón Guðbrandsson og Sveinn Gíslason, formaður körfuknattleiksdeildar Reynis, voru sammála um það að Reynir mætir tilbúið til leiks næsta vetur og eru staðráðnir í að standa sig. Ekki er ljóst hvort Nathan Harley leiki með þeim í vetur en Jón Guðbrandsson segir liðið þurfa að styrkja sig aðeins fyrir átökin næsta vetur en að kjarninn verði áfram núverandi leikmenn Reynis sem hafa staðið sig virkilega vel í vetur.
VF-Mynd úr safni