Reynismenn komnir í úrslitakeppnina
Reynir frá Sandgerði hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu eftir tvo góða sigra á Vestfjörðum um helgina. Þeir eru öruggir í efsta sætinu og hafa ekki tapað leik í sumar.
Á laugardaginn var leikið við BÍ og endaði sá leikur með 2-1 sigri Reynis.
Vilhjálmur Skúlason kom Reynismönnum yfir, en Ísfirðingarnir náðu að jafna fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik tryggði Sverrir Þór Sverrisson Reynissigur með marki eftir skalla frá Hafsteini Þór Friðrikssyni. Með þessum sigri tryggði Reynir sér efsta sætið í B-riðli 3. deildar og er ljóst að mótherjarnir í 8-liða úrslitum 3. deildarinnar verður liði í 2. sæti C-riðils, sem verður annað hvort Hvöt frá Blönduósi eða Magni frá Grenivík.
Á sunnudaginn voru Reynismenn svo í heimsókn hjá Bolvíkingum og unnu sannfærandi
4-1 sigur. Vilhjálmur Skúlason kom Reynismönnum á bragðið og Gísli Þór Þórarinsson bætti síðan öðru marki gestana við. Það var þjálfarinn sjálfur, Gunnar Oddsson, sem skoraði þriðja mark Reynis og greinilegt að þessi gamla kempa er enn í fínu formi. Sveinn Vilhjálmsson skoraði síðan fjórða markið og gulltryggði sigurinn.
Næsta verkefni Reynis er laugardaginn 14. ágúst kl. 14:00 á Sandgerðisvelli þegar þeir leika við Hamar úr Hveragerði í síðasta leiknum í deildinni og átökin í úrslitakeppninni hefjast síðan laugardaginn 21. ágúst þegar Reynismenn halda norður í land, annað hvort til Blönduóss eða Grenivíkur.
ÓÞÓ
Mynd úr safni