Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynismenn einir á toppnum en Njarðvík komið í fallsæti
Julio Cesar Fernandes kom Reynismönnum á bragðið. Myndir úr safni Víkurfrétta/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 3. júlí 2023 kl. 10:52

Reynismenn einir á toppnum en Njarðvík komið í fallsæti

Eftir leiki helgarinnar eru Reynismenn einir á toppi 3. deildar karla í knattspyrnu eftri 5:1 sigur á Ými. Víðismenn töpuðu fyrir Elliða 2:1 og eru í þriðja sæti. Njarðvíkingar höfðu hins vegar sætaskipti við Leikni Reykjavík í botnslag Lengjudeildar karla eftir 3:0 tap á útivelli.

Reynir - Ýmir 5:1

Mörk Reynis komu  á færibandi undir lok fyrri hálflleiks. Julio Cesar Fernandes kom Reynir yfir á 30. mínútu og fyrirliðinn Benedikt Jónsson tvöfaldaði forystuna skömmu síðar (34'). Kristófer Páll Viðarsson skoraði þriðja markið úr víti á 37. mínútu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bergþór Ingi Smárason skoraði fjórða markið í upphafi þess seinni (46') en Ýmismenn klóruðu í bakkann á 74. mínútu.

Bergþór Ingi skoraði fyrsta mark sitt fyrir Reyni í deildinni í ár.

Ægir Þór Viðarsson rak síðasta naglann í kistu Ýmismanna á 85. mínútu og stórsigur þeirra í höfn aðra helgina í röð.

Reynir er með 22 stig í efsta sæti en næstir koma Kormákur/Hvöt með tuttugu stig.


Elliði - Víðir 2:1

Vörn Víðis fékk á sig tvö mörk um helgina.

Víðismönnum mistókst að halda í við Reynismenn á toppnum en fyrir leiki umferðarinnar voru liðin jöfn og efst.

Ísak John Ævarsson kom Víði yfir í fyrri hálfleik (25') en tvö mörk frá Elliða í seinni hálfleik kostuðu sigurinn. Fyrra markið skoruðu þeir úr víti (78') og sigurmarkið kom í uppbótartíma (90'+1).

Víðismenn eru í þriðja sæti 3. deildar með nítján stig.


Víkingur Ó. - Þróttur 2:1

Þróttarar hafa ekki sýnt stöðugleika á tímabilinu en liðið er ungt og í uppbyggingu.

Þróttur tapaði fyrir Víkingi á Ólafsvíkurvelli í tíundu umferð 2. deildar karla en heimamenn skoruðu tvívegis á skömmum tíma í fyrri hálfleik (22' víti og 22').

Rétt áður en flautað var til hálfleiks fékk Andri Steinn Birgisson að líta rauða spjaldið og útlitið því ekki gott fyrir Þróttara, tveimur mörkum undir í hálfleik og manni færri.

Þróttur minnkaði samt muninn á 78. mínútu með marki Kára Sigþórssonar en lengra komust þeir ekki og sitja í fjórða sæti með sautján stig. Efsta lið deildarinnar, Víkingur Ó., er með 22 stig.


Leiknir R. - Njarðvík 3:0

Robert Blakala sá rautt og eftir það hrundi leikur Njarðvíkinga.

Leiknismenn komust einu stigi upp fyrir Njarðvíkinga þegar þeir unnu 3:0 sigur á heimavelli en fyrri hálfleikur var markalaus.

Njarðvíkingar urðu fyrir áfalli í lok fyrri hálfleiks þegar Robert Blakala, markvörður Njarðvíkur, tæklaði sóknarmann Leiknis utan teigs. Knattspyrnumiðillinn Fótbolti.net taldi dóminn mjög vafasaman og vildi meina að Blakala hefði farið í boltann fyrst. Engu að síður rautt spjald og Njarðvíkingar manni færri í seinni hálfleik.

Leiknismenn nýttu liðsmuninn og skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleik (48', 60' og 73'). Fyrir vikið komust þeir upp fyrir Njarðvík sem er með sjö stig í næstneðsta sæti Lengjudeildarinnar.