Reynismenn efstir í annarri deild
Það var heldur betur hörku Suðurnesjaslagur í kvöld þegar Þróttur og Reynir mættust í sjöttu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn sátu Þróttarar í þriðja sæti en Reynismenn í því fimmta en snerist við eftir leik því Reynir vann mikilvægan sigur með þremur mörkum gegn einu marki heimamanna.
Reynismenn hafa heldur betur komið á óvart í Íslandsmótinu í sumar en liðinu var spáð þriðja neðsta sæti deildarinnar af fyrirliðum og þjálfurum. Eftir sex umferðir hefur Reynir tapað tveimur leikjum en unnið sex.
Það var ekkert gefið eftir í leiknum sem fram fór á heimavelli Þróttar. Reynismenn komust yfir á 20. mínútu þegar Sæþór Ívan Viðarson átti gott skot utan teigs sem hafnaði í netinu.
Viktor Smári Segatta jafnaði leikinn fimm mínútum síðar (25') en Reynismenn létu það ekki slá sig út af laginu og komust yfir á 32. mínútu með marki frá Edon Osmani. Staðan 1:2 í hálfleik fyrir gestina.
Eins og í leiknum gegn Völsungi léku Reynismenn skynsamlega eftir að þeir komust yfir, þeir spiluðu agaðan varnarleik og voru fljótir fram þegar færi gafst. Bæði lið léku fast, Þróttarar ólmir í að jafna metin en Reynismenn gerðu sitt til að halda fengnum hlut.
Þróttarar stjórnuðu seinni hálfleik framan af, fengu að spila boltanum aftarlega en það var tekið fast á þeim þegar þeir færðu sig framar á völlinn. Eftir því sem leið á hálfleikinn færðu Reynismenn sig meira upp á skaftið og það bar árangur á 69. mínútu þegar Kristófer Páll Viðarsson lét vaða af löngu færi og setti boltann í netið út við stöng. Reynir kominn með tveggja marka forystu, 1:3.
Þróttarar sóttu stíft það sem eftir lifði leiks, fyrirliðinn, Andy Pew, fór í sóknina og þeir reyndu mikið af háum sendingum fyrir markið enda er Andy öflugur skallamaður – en það bar ekki tilsettan árangur.
Þróttur fékk vítaspyrnu seint í leiknum en Rúnar Gissurarson, markvörður Reynis, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Rúnar átti góðan leik í markinu, greip vel inn í og varði oft á tímum mjög vel.
Lokatölur 1:3 og Reynismenn sitja einir á toppi deildarinnar eftir sigurinn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók þær myndir sem má sjá í myndasafni neðst í fréttinni.