Reynismenn auka forystu sína á toppnum
Reynismenn unnu í gær mikilvægan sigur á Augnabliki í toppbaráttu 3. deildar karla í knattspyrnu. Augnablik er í þriðja sæti deildarinnar og var fjórum stigum á eftir Reyni fyrir leikinn en með sigrinum munar nú sjö stigum á liðunum. Reynir er með 28 stig á toppnum og Víðismenn eru í öðru sæti með 22 stig en þeir eiga leik gegn Kormáki/Hvöt á morgun, laugardag, og geta minnkað muninn í þrjú stig.
Fyrri hálfleikur var markalaus og það var ekki fyrr en á 73. mínútu að fyrsta markið leit dagsins ljós. Þar var markaskorarinn Kristófer Páll Viðarsson að verki en hann skoraði tíunda mark sitt í deildinni og er markahæstur.
Augnablik jafnaði leikinn skömmu fyrir leikslok (85') með marki úr víti en fyrirliði Reynismanna, Benedikt Jónsson, tryggði sigurinn með marki í uppbótartíma (90'+1).