Reynismenn áfram í Borgunarbikarnum
Víðismenn úr leik
Reynir Sandgerði komst auðveldlega í gegnum 1. umferð Borgunarbikarsins þegar liðið skellti Ísbirninum á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi. Lokatölur urðu 0-9 fyrir Reyismenn eftir að staðan var 0-3 í hálfleik.
Sindri Lars Ómarsson skoraði tvö fyrstu mörk leiksins og alls þrjú mörk í leiknum. Margeir Felix Gústavsson skoraði tvö, Jóhann Magni Jóhansson, Pétur Þór Jaidee, Birkir Freyr Sigurðsson og Magnús Einar Magnússon skorðu allir sitt markið hvor.
Reynismenn fá 1. deildar lið Selfyssinga í heimsókn i næstu umferð bikarsins og verður sá leikur þann 19. maí n.k.
Víðir í Garði lék gegn liði Kríu í Reykjaneshöllinni og varð að bíta í það súra epli að detta úr leik í bikarnum eftir framlengdan leik, 1-2.
Víðismenn lentu undir á 79. mínútu en Helgi Þór Jónsson jafnaði metin á 90. mínútu og tryggði það með Víðismönnum framlengingu.
Jafnt var eftir fyrri hálfleik framlengingar en Kría tryggði sér sigur með marki 8 mínútum fyrir lok framlengingar en liðið lék manni færri alla framlenginguna.
Víðismenn eru þar með úr leik í bikarnum en bæði Víðir og Reynir munu leika í 3. deildinni í sumar og leika bæði lið sína fyrstu leiki laugardaginn 16. maí þegar Víðir sækir Kára heim á Akranes og Reynismenn fá Völsung í heimsókn.