Reynismenn áfram í 3. deild þrátt fyrir sigur
Völsungur upp í 2. deild
Síðasta umferð 3. deildar karla var leikin í gær þar sem að bæði Reynir og Víðir sigruðu andstæðinga sína. Víðismenn sigruðu KFR á Nesfisksvellinum 4-1 og Reynir lagði KFS í Vestmannaeyjum 2-3.
Víðismenn luku tímabilinu með gæsilegum 4-1 sigri á KFR þar sem að Árni Gunnar Þorsteinsson, Dejan Stamenkovic, Aleksandar Stojkovic og Einar Karl Vilhjálmsson skoruðu mörk heimamanna.
Víðir lýkur því keppnistímabilinu í 6. sæti deildarinnar sem verður að teljast þrælfínt miðað við gengi liðsins um mitt mót þar sem að liðið sat á botninum og gat ekki keypt sér stig. Haldi Víðismenn sama leikmannahópi og þá sér í lagi þeim erlendu leikmönnum sem spila fyrir liðið eru strákarnir úr Garðinum til alls líklegir næsta sumar.
Reynismenn naga eflaust í handabökin þessa helgina en liðið missti af sæti í 2. deild þrátt fyrir góðan útisigur á KFS í Vestmannaeyjum í gær. Mörk Reynis gerðu þeir Jóhann Magni Jóhannsson (2) og Þorsteinn Þorsteinsson sem að skoraði sigurmark leiksins fimm mínútum fyrir leikslok.
Reynir átti smá von um komast í 2. sætið en stórsigur Völsungs á Berserkjum gerði það að verkum að Völsungur fór upp um deild en aðeins einu stigi munaði á þeim og Sandgerðingum. Erfitt hlutskipti fyrir Reynismenn að kyngja eftir gott sumar þar sem að eitt mark til eða frá hefði skilað þeim launum erfiðis síns.
Þar með er ljóst að a.m.k. þrjú Suðurnesjalið verða í 3. deild karla að ári, Reynir Víðir og Þróttur Vogum sem koma uppúr 4. deildinni. Liðin geta orðið fjögur þar sem að Njarðvík er enn ekki sloppið frá falli í 2. deild en það mun koma í ljós næstu helgi hvort að 4 af 6 karlaliðum í knattspyrnu á Suðurnesjum verði í einni og sömu deildinni næsta sumar