Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynismenn að snúa vörn í sókn – myndaveisla frá Bronsvellinum
Vörn Reynis stóð vaktina og hélt sóknarleik KFA í skefjum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 2. ágúst 2024 kl. 11:17

Reynismenn að snúa vörn í sókn – myndaveisla frá Bronsvellinum

Reynismenn unnu mikilvægan sigur á KFA í annarri deild karla í gær en Reyni hefur ekki gengið sem skildi í sumar og heyja harða fallbaráttu.

„Þetta er búin að vera brekka,“ sagði sigurreifur þjálfari Reynismanna, Ray Anthony Jónsson, að leik loknum og hrósaði sínum mönnum óspart fyrir frammistöðuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú er stóra spurningin hvort sigurinn hafi verið vendipunkturinn hjá Reynismönnum og þeim takist að komast úr fallsætinu áður en deildin klárast í haust.

Reynir - KFA 3:1

Reynismenn komu af krafti inn í leikinn og náðu forystu í upphafi leiks með marki Strahinja Pajic (2').

Draumabyrjun hjá Reyni þegar Pajic renndi knettinum í markið.

KFA er í harðri toppbaráttu og eins og við var að búast stjórnuðu gestirnir leiknum að mestu en agaður og öflugur varnarleikur Reynis sá til þess að þeir fengu fá færi.

Heimamenn vörðust vel og beittu skyndisóknum sem olli varnarmönnum KFA oft og tíðum vandræðum.

Reynismenn fengu tækifæri til að setja fleiri mörk og það var því eins og braut tuska í andlit þeirra þegar fyrrum leikmaður Reynis, Julio Cesar Fernandes, jafnaði leikinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Jöfnunarmark á versta tíma (45’+3). 

Jöfnunarmark Fernandes var óverjandi fyrir Jakub „Kuba“ Górski í marki Reynis.

Reynismenn létu það ekki á sig fá og héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik. Vörðust vel og börðust eins og ljón.

Hagur heimamanna vænkaðist á 61. mínútu þegar brotið var á Sindra Þór Guðmundssyni á miðjum vellinum í þann mund sem hann var að sleppa inn fyrir vörn KFA. Leikmanni KFA var sýnt gula spjaldið, sem var hans annað í leiknum, og gestirnir manni færri síðast hálftímann eða svo.

Sindri Þór var mjög iðinn í vörn og sókn í gær. Hér var hann hársbreidd frá því að skora með skemmtilegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf frá markaskoraranum Strahinja Pajic.

Reynismenn nýttu forskot sitt vel og tóku forystu fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma með marki Alexanders Helgasonar (85’).

Heimamenn stöldruðu ekki við og gulltryggðu sigurinn þremur mínútum síðar (88'), þar var Leonard Adam Zmarzlik að verki.

Zmarzlik gulltryggir sigurinn með þriðja marki Reynis.

Þungu fargi var létt af Reynismönnum sem höfðu aðeins náð í átta stig í fyrstu fjórtán umferðunum.

Kuba var eins og kóngur í ríki sínu í teignum og átti stórleik í marki Reynis. Að öðrum ólöstuðum var hann sennilega besti maður vallarins í gær.
Skarð fyrir skildi. Sindri Lars Ómarsson var borinn meiddur af velli í gær og það er spurning hversu alvarleg meiðsli hans eru.

Reynir situr áfram í neðsta sæti með ellefu stig en þeir eygja nú von því það vantar ekki mikið upp á að komast úr fallsæti. Þrjú næstu lið eru; KFG (16 stig), Ægir (14 stig) og KF (12 stig).


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Bronsvellinum í gær og veglega myndasyrpu úr leiknum er að finna neðst á síðunni.

Reynir - KFA (3:1) | 2. deild karla 1. ágúst 2024