Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Reynir úr leik eftir tap á Eskifirði
Þriðjudagur 31. ágúst 2004 kl. 21:26

Reynir úr leik eftir tap á Eskifirði

Reynismenn eru úr leik í úrslitakeppni 3. deildar karla eftir 3-2 tap gegn Fjarðabyggð í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum. Fyrri leikur liðanna fór 0-0 á Sandgerðisvelli þrátt fyrir að Reynismenn hafi verið mun sterkari aðilinn þar.

Reynismenn hófu leikinn í kvöld vel og voru sterkari aðilinn framan af, en heimamenn komust yfir gegn gangi leiksins. Ari Gylfason jafnaði leikinn fyrir Reyni en Fjarðabyggð komst yfir á ný skömmu fyrir leikhlé.

Þegar um 20 mín voru eftir af leiknum bættu þeir þriðja markinu við og útlitið var ekki gott fyrir Reyni.

Gísli Þór Þórarinsson minnkaði muninn þó þegar um 10 mín voru eftir og var lokakafli leiksins æsispennandi þar sem Reyni nægði jafntefli til að komast áfram. Pressan var mikil á mark heimamanna en allt kom fyrir ekki og Reynir er úr leik í úrslitakeppninni enn eitt árið.

„Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Gunnar Oddsson, þjálfari Reynis í samtali við Víkurfréttir í kvöld. „Mestu vonbrigðin eru þó sú að hafa ekki náð að skora á heimavelli. Við fengum mikið af færum þar og áttum að fara með mörk með okkur hingað.“

Gunnar sagði að lokum að nú myndu þeir taka sér tíma til að ná sér eftir tapið en eftir það yrðu málin skoðuð upp á nýtt.

Reynismenn höfðu staðið sig með mikilli prýði í sumar og var leikurinn í kvöld sá fyrsti sem þeir tapa á allri leiktíðinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024