Reynir sigraði KR í minningarleik um Magnús Þórðarson
Reynir úr Sandgerði bar sigurorð af KR, 2-1, í árlegum minningarleik liðanna um Magnús Þórðarson, einn af stofnendum Ksf. Reynis.
Leikurinn var háður á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði í nokkuð vindasömu veðri í dag. Þetta var fyrsti leikurinn á vellinum eftir að nafni hans var breytt í Sparisjóðsvöllurinn.
Leikurinn var nokkuð jafn en Jóhann Magni Jóhannsson kom Reynismönnum yfir á 32. mínútu með laglegu skallamarki eftir fyrirgjöf Hafsteins Ingvars Rúnarssonar. Leikar stóðu því 1-0 í hálfleik en Hafsteinn var sjálfur á ferð í upphafi seinni hálfleiks og breyti stöðunni í 2-0.
Það var svo 18 mínútum fyrir leikslok sem Björgólfur Takefúsa minnkaði muninn og þar við sat. Þetta var sannarlega glæsilegur árangur hjá Reynismönnum sem munu leika í 1. deild í sumar.
Þess má geta að Reynir tók í gagnið nýja heimasíðu fyrir skemmstu á slóðinni www.reynir.is. Sú síða hafði lengi verið notuð af körfuknattleiksdeild félagsins en nú er þar að finna upplýsingar um allar deildir.
Þar má einnig finna frekari lýsingu á minningarleiknum og um Magnús sjálfan og hans verk.