Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 27. júlí 2001 kl. 10:38

Reynir sigraði Ægi í grófum leik

Reynir sótti Ægismenn heim í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Leiknum lauk með sigri Reynismanna.

Gunnar Davíð Gunnarsson kom Reyni yfir um miðjan fyrri hálfleik. Smári
Guðmundsson bætti síðan öðru marki við rétt eftir hlé. Marteinn Guðjónsson
innsiglaði sigur Reynis með tveimur mörkum á síðasta korteri leiksins.
Magnús H. Magnússon, varnarmaðurinn sterki í liði Reynis, var rekinn af
velli á lokamínútu leiksins fyrir að ýta við leikmanni Ægis. Þótti það
harður dómur hjá Sigurði Óla Þorleifssyni dómara leiksins, einkum með
tilliti til hvernig leikurinn þróaðist. Sem dæmi má nefna að stuttu fyrir
brottreksturinn fékk Angantýr Þór Sigurðsson, fyrirliði Ægis, einungis gult
spjald fyrir að gefa Antoni A.J. Stissi olnbogaskot í andlitið.
Leikurinn var mjög grófur og m.a. þurftu tveir leikmenn Reynis að fara
meiddir af leikvelli á fyrstu 20 mínútum leiksins eftir grófar tæklingar.
Besti maður leiksins var Gunnar Davíð Gunnarsson í vörn Reynis. Ekki
einungis kom hann ásamt félögum sínum í öftustu víglínu í veg fyrir að Ægir
næði að ógna marki Reynis, heldur skoraði hann einnig fyrst mark leiksins
með góðu vinstrifótar skoti.
Eftir leikinn eru Reynismenn efstir í B-riðli 3. deildar með 22 stig,
tveimur stigum meira en Njarðvík sem er í öðru sæti. Þessi lið mætast í
toppslag á Sandgerðisvelli þriðjudaginn kemur kl. 20:00. Sá leikur hefur
gífurlega mikla þýðingu fyrir bæði lið í baráttunni um sæti í úrslitum 3.
deildar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024