Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 22. mars 2001 kl. 11:00

Reynir Sandgerði upp í 1. deild

Úrslitakeppni 2. deildar fór fram helgina 16.–18. mars í Ólafsvík og Grundarfirði. Reynir spilaði á Ólafsvík í riðli með Reyni Hellissandi, Hrönn og Skotfélag Akureyrar. Reynismenn tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum og voru þar með búnir að tryggja sér sæti í 1. deild að ári.
Fyrsti leikur var á móti heimamönnum af Hellissandi. Leikurinn var ekki erfiður fyrir Sandgerðingana og endaði hann 58–77 fyrir Reyni S. Síðan var spilað á laugardagsmorgni við Hrönn og það var eins og Reynismenn væru ekki alveg vaknaðir því aldrei náðist að stinga Hrönn af. Enda börðust þeir eins og ljón minnugir tapsins í Sandgerði fyrir mánuði síðan 141–77. Leikurinn endaði með sigri Reynis 76–58.
Síðar sama dag var komið að leik við Skotfélag Akureyrar sem samanstendur af gömlum Þórsurum. Sá leikur var hinn skemmtilegastur því gömlu jálkarnir kunnu ýmislegt fyrir sér. En það dugði ekki til því ungu strákarnir höfðu yfir meiri hraða og úthaldi að ráða og kláruðu leikinn 105 – 98. Óli Garðar Axelsson, 36 stig og Hlynur Jónsson, 22 stig voru langbestir Reynismanna. Þar með höfðu Reynismenn tryggt sér sæti í úrslitaleiknum og voru þá búnir að tryggja sér sæti í 1. deild að ári.
Á sama tíma höfðu leikmenn Íþróttarfélags Grindavíkur (ÍG) tryggt sér sæti í 1.deild og úrslitaleikinn á móti Reyni í sínum riðli í Grundarfirði. Á sunnudeginum 18. mars kl. 16.00 fór síðan fram úrslitaleikurinn á milli illa lyktandi leikmanna því eldur hafði komið upp í sjoppu beint fyrir neðan gistiheimilið sem bæði liðin gistu á. Þetta skeði rétt fyrir leik svo það var ekki um annað að ræða en að vaða inn á gisistaðinn í reyknum til að ná í búningana.
En allt gekk þetta upp og leikurinn fór fram og þar höfðu síðan Reynismenn sigur 66–86 eftir að hafa leitt í hálfleik 31–39. Stig Reynis Óli Garðar Axelsson 6 , Hlynur Jónsson 1, Sigurþór Þórarinsson 9, Skúli Sigurðsson 7, Rúnar Pálsson 5, Davíð Ásgeirsson 4, Magnús Sigfússon 6, Njörður Jóhannsson 25, Emil Sigurbjörnsson 3, Magnús Sigurðsson 11, Hermann Helgason 3 og Sveinn Hans Gíslason 6.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024