Reynir og Víðir efst eftir stórsigra
Það hellirigndi á Suðurnesjum í gær þegar leikið var í 2. og 3. deild karla í knattspyrnu – mörkin létu heldur ekki á sér standa en þeim rigndi hreinlega inn. Bæði Reynis- og Víðismenn unnu stórsigra á andstæðingum sínum, 4:1 urðu úrslit í leikjum þeirra beggja og fyrir vikið sitja þau nú efst og jöfn að stigum í 3. deildinni. Þróttarar unnu Völsung 3:2 í 2. deild karla og eru komnir í þriðja sæti deildarinnar.
Reynir - Kári 4:1
Eftir opin leik og mikla baráttu í fyrri hálfleik opnaði Kristófer Páll Viðarsson markareikning Reynismanna á 35. mínútu þegar hann tók sénsinn og stakk sér inn fyrir vörn gestanna sem var undir mikilli pressu. Varnarmaður Kára ætlaði að gefa á markmann en Kristófer komst inn í sendinguna og þakkaði fyrir sig með marki. Hann var svo aftur á ferðinni í byrjun seinni hálfleiks (46') og kom Reynir í 2:0. Gestirnir minnkuðu muninn en Ægir Þór Viðarsson kom inn á og innsiglaði sigur Reynismanna með tveimur mörkum (80' og 82').
Kristófer er kominn með sex mörk og er nú þriðji markahæstur í 3. deild.
Víðir - Ýmir 4:1
Víðismenn áttu ekki í miklum vandræðum með Ými í gær en buðu hættunni heim með kæruleysislegum varnarleik í seinni hálfleik.
Ari Steinn Guðmundsson skoraði fyrsta markið í gær (24') og Falur Orri Guðmundsson tvöfaldaði forystuna fyrir leikhlé (37').
Í seinni hálfleik héldu Víðismenn áfram að búa til færi en sofandaháttur í vörninni varð til þess að Ýmismönnum var dæmt víti þegar Joaquin Ketlun Sinigaglia, markvörður Víðis, braut á sóknarmanni sem var kominn einn í gegn. Sinigaglia gerði sér lítið fyrir og varði vítið.
Skömmu síðar var annað víti dæmt á Víði þegar dómarinn dæmdi hendi á varnarmann. Ýmismönnum brást ekki bogalistinn að þessu sinni og minnkuðu muninn (58').
Atli Freyr Ottesen var ekki lengi að svara fyrir Víði (61') og Ari Steinn gulltryggði svo sigurinn í lok leiks ((90'+1).
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á leikina í Suðurnesjabæ og eru myndasöfn neðst á síðunni.
Þróttur - Völsungur 3:2
Kári Sigfússon heldur áfram að skora fyrir Þróttara og er orðinn næstmarkahæstur í deildinni með sjö mörk en Kári skoraði tvö í gær (33' og 87'), þá skoraði Haukur Leifur Eiríksson á 79. mínútu og tryggði sigur Þróttar en Völsungur minnkaði muninn í uppbótartíma )90'+4). Fyrirliðinn Adam Árni Róbertsson fylgir fast á hæla Kára með sex mörk.