Reynir mætir Fjarðabyggð í kvöld
Fjórðu umferð í 1. deild karla lýkur í kvöld en henni var frestað á dögunum og nokkrir leikir færðir til. Aðeins eitt Suðurnesjalið í 1. deild karla í knattspyrnu á leik eftir í 4. umferðinni og það eru Reynismenn frá Sandgerði en þeir taka á móti Fjarðabyggð á Sparisjóðsvellinum í kvöld. Leikurinn hefst kl. 20:00 og munu Sandgerðingar freista þess að ná sínum fyrsta deildarsigri síðan 14. maí.
Reynir er í 10. sæti deildarinnar með 4 stig en Fjarðabyggð er í 4. sæti með 10 stig og hafa á sterkum hóp að skipa og þykja sigurstranglegri fyrirfram. Sparisjóðsvöllurinn hefur ekki orðið það vígi sem Reynismenn vildu helst hafa því í tvígang hefur það gerst í upphafi deildarinnar að Reynir hefur fengið á sig fimm mörk. Heima gegn Þór og úti gegn Stjörnunni. Hvort Sandgerðingum tekst að ná fram hagstæðum úrslitum í þessari umferð kemur í ljós í kvöld.