Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Reynir lagði Víði í miklum markaleik
Föstudagur 24. júlí 2009 kl. 14:21

Reynir lagði Víði í miklum markaleik

Það er óhætt að segja að Reynir og Víðir hafi verið á skotskónum margfrægu þegar liðin mættust í grannaslag 2. deildar karla í knattspyrnu, á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði í gær. Leik þeirra lauk með stórsigri Reynismanna, 6-3, og halda þeir því toppsætinu enn um sinn.

Samkvæmt heimasíðu Reynis var góð mæting á leikinn og fengu áhorfendur sannarlega mikið fyrir aurinn.


Leikurinn hófst með miklum látum þar sem bæði lið fengu góð færi áður en Reynismenn brutu ísinn með mörkum frá Hjörvari Hermannssyni og Magna Jóhannssyni en Haraldur Axel Einarsson minnkaði muninn rétt undir lok fyrri hálfleiks. Magni var þó ekki búinn að segja sitt síðasta og prjónaði sig í gegnum vörn Víðismanna og skoraði laglegt mark rétt áður en flautað var til hálfleiks.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Víðismenn voru svo fljótir að minnka muninn þegar Atli Rúnar Hólmbergsson breytti stöðunni í 3-2 á 48. mínútu, en sem fyrr var skammt stórra högga á milli og Hjörvar svaraði að bragði fyrir Sandgerðinga, mínútu síðar, og staðan var orðin 4-2.


Einungis þremur mínútum síðar hafði Kristján Óli Sigurðsson skorað fimmta markið og Magni innsiglaði sigurinn og þrennuna með marki á 67. mínútu. Víðismenn fengu svo eitt mark í sárabót fimm mínútum fyrir leikslok þar sem Haraldur Axel var aftur á ferðinni, en stórsigur var staðreynd.


Reynismenn kynntu framtíðarleikmann til sögunnar á lokamínútu leiksins þar sem Runólfur Örn Árnason, tæplega 15 ára gamall, kom inná sem varamaður og er þar með yngsti meistaraflokksleikmaður Reynis frá upphafi.


Reynir er enn með þriggja stiga forskot á Gróttu, en Víðir eru í níunda sæti, rétt neðan við miðja deild.

Mynd úr safni/Jón Örvar - Reynismenn á góðri stund