Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynir í fyrsta sætið eftir rafmagnaðar lokamínútur í Hafnarfirði
Föstudagur 23. júlí 2004 kl. 10:43

Reynir í fyrsta sætið eftir rafmagnaðar lokamínútur í Hafnarfirði

Reynismenn tylltu sér í efsta sætið í B-riðils með 3-2 sigri á Í.H. í Hafnarfirði í gærkvöldi. Fótboltinn sem var boðið upp á í Kaplakrikanum var ekki mikið fyrir augað, lítið um spil en meira um háloftabolta, en mikil spenna bætti það upp.

Reynismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og tóku verðskuldað forystuna eftir hálftíma leik. Þá gerði markvörður Hafnfirðinganna mistök þannig að Hafsteinn I. Rúnarsson náði boltanum og skoraði fyrsta mark Reynis. Fátt annað markvert gerðist í hálfleiknum og Sandgerðingarnir fóru í tehléið með eins marks forystu.

Seinni hálfleikur byrjaði á svipaðan hatt og sá fyrri, mikil barátta en Reynismenn þó líklegri til að skora. Á 60. mínútu dæmdi Einar Sigurðsson dómari, sem hefur átt betri daga, víti á Reynismenn. Há sending kom inn í vítateig Reynis sem Eyþór Örn Haraldsson greip örugglega, en féll þó við eftir samstuð við sóknarmann Í.H. Dómarinn sá hins vegar eitthvað sem aðrir gerðu ekki og dæmdi víti sem markamaskínan Kristófer Róbertsson skoraði úr.

Við þetta virtust Reynismenn missa einbeitninguna og Hafnfirðingarnir komust meira inn í leikinn.  Fátt markvert gerðist þó fyrr en á síðustu 10 mínútum leiksins, sem voru í sama spennuflokki og bestu bækur Stephen King.

Á 80. mínútu bætti Hafsteinn I. Rúnarsson við sínu öðru marki í leiknum og kom Reynismönnum yfir. Það kom löng sending fram völlinn, Hafsteinn stakk varnarmenn Í.H. af og stýrði knettinum í markið af öryggi.

Fjórum mínútum síðar jöfnuðu Hafnfirðingarnir í annað sinn.  Þeir sóttu þá upp vinstri kantinn og sendu fastan jarðarbolta fyrir markið. Það virtist ekki vera mikil hætta á ferðum enda stefndi knötturinn í fang Eyþórs í markinu. Hann misreiknaði hins vegar sendinguna og fékk boltann í hælinn og þaðan fór hann í netið, sjálfsmark hjá markverðinum.

Reynismenn blésu strax til sóknar og mínútu síðar voru þeir aftur komnir með forystuna með marki frá Georg Birgissyni, sem skoraði með viðstöðulausu skoti fyrir utan teig.  Það sem eftir lifði leiks reyndi Í.H. hvað þeir gátu til að jafna, en náðu aldrei að opna vörn Reynis, enda var Gunnar Oddsson þjálfari þá kominn inn á til að stjórna leik sinna manna.

Reynismenn geta verið sáttir við sigurinn í Hafnarfirði, enda léku þeir án þriggja fastamanna þeirra Sverris Þórs Sverrissonar, Ara Gylfasonar og Hafsteins R. Helgasonar.  Hins vegar var það Hafsteinn I. Rúnarsson sem var hetja Reynis í leiknum, en hann var að spila sinn fyrsta leik með félaginu eftir að hafa skipt frá Keflavík. Hann barðist eins og ljón allan leikinn, skapaði mikinn usla í vörn Í.H. með hraða sínum og skoraði tvö mörk.  Hann var besti maður Reynis í leiknum, ásamt Hafsteini Þór Friðrikssyni, sem var sívinnandi á miðjunni.

Með þessum sigri eru Reynismenn komnir í þægilega stöðu í efsta sæti B-riðils 3. deildar með tveggja stiga forystu á Í.H. og hafa leikið einum leik færra.  Næsti leikur Reynis er á Sandgerðisvelli miðvikudaginn 28. júlí kl. 20:00 þegar Ægir úr Þorlákshöfn kemur í heimsókn.

ÓÞÓ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024