Reynir á toppnum
Sandgerðingar náðu toppsætinu í 2. deild karla í knattspyrnu þegar þeir unnu Gróttu 3-1 á heimavelli sínum. Það var sannkallað blíðskaparveður þegar Seltirningar komu í heimsókn á N1-völlinn í gærkvöldi. Bæði lið hófu leikinn nokkuð varfærnislega en fóru fljótlega að bæta í og úr varð nokkuð fjörugur leikur. Fyrsta færi leiksins kom á 8. mínútu þegar Garðar Guðnason slapp einn innfyrir vörn heimamanna en Aron Elís í markinu varði glæsilega.
Á 17. mínútu leiksins átti Egill Jóhannsson flotta sendingu af miðju út á hægri kant þar sem Pétur Þór Jaidee tók við boltanum og lék í átt að teignum, á vítateigslínu sendi Pétur fastan bolta fyrir sem Dusan Ivkovic reyndi að verjast en það vildi ekki betur til en svo að Dusan fékk boltann í höndina og góður dómari leiksins, Þorvaldur Árnason, gat lítið annað gert en dæmt vítaspyrnu. Egill Jóhannsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.
Við markið hresstust heimamenn mikið og á 19. mínútu átti Jóhann Magni Jóhannsson skot rétt framhjá markinu. Á 23.mínútu fékk Guðmundur Gísli Gunnarsson svo glæsilega sending upp vinstri kantinn, lék á einn varnarmann og skaut svo rétt framhjá stönginni.
Annað mark leiksins kom svo á 34. mínútu þegar Pétur Þór Jaidee átti aukaspyrnu út við endalínu hægra meginn, sendi boltann beint á kollinn á Aroni Reynissyni sem kom heimamönnum í 2-0. Reynismenn voru svo ansi nálægt því að bæta við þriðja markinu fyrir leikhlé þegar Egill Jóhannsson átti glæsilegt skot sem stefndi í blávinkilinn en Jón Kolbeinn Guðjónsson varði meistaralega.
Í seinni hálfleik var aðeins meira líf í gestunum og á 60. mínútu áttu þeir aukaspyrnu sem sveif rétt yfir slánna.
Reynismenn fengu aðra vítaspyrnu á 68. mínútu þegar Dusan Ivkovic braut á Guðmundi Gísla Gunnarssyni. Egill fór aftur á punktinn og skoraði örugglega og heimamenn komnir í þægilega 3-0 stöðu.
Gestirnir reyndu allt sem þeir gátu til að minnka muninn og uppskáru mark á 73. mínútu. Gróttumenn fengu aukaspyrnu á miðjum vellinum og sendu háan bolta fyrir í holuna á milli markmanns og varnarinnar, þar skaust fyrirliðinn Guðmundur Marteinn Hannesson fram og náði boltanum á undan Aron Elís í markinu og setti yfir hann.
Eftir þetta börðust gestirnir af miklu afli og reyndu hvað þeir gátu að skora annað mark, vörn Reynismanna varðist þó vel og kom í veg fyrir að Gróttumenn minnkuðu muninn enn frekar.
Síðasta færi leiksins kom svo í uppbótartíma þegar Guðmundur Gísli lék á tvo varnarmenn Gróttu og lét vaða á markið af vítateigslínu, boltinn hafði viðkomu í varnarmanni og einhvernveginn naði Jón Kolbeinn í markinu að koma fætinum fyrir og setja boltann yfir markið.
3-1 sigur Reynismanna í nokkuð fjörugum og skemmtilegum leik í Sandgerði. Reynismenn tilltu sér með sigrinum á top 2. deildar og mæta fuller sjálfstraust í bikarleikinn gegn Stjörnunni á mánudaginn.
Reynir S. 3 – 1 Grótta
1-0 Egill Jóhannsson ('17, víti)
2-0 Aron Reynisson ('34)
3-0 Egill Jóhannsson ('68, víti)
3-1 Guðmundur Marteinn Hannesson ('74)
Mynd: Sigurpáll Árnason
- Sigurpáll Árnason skrifaði úr Sandgerði fyrir fótbolti.net