Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Reykjanesmótið í götuhjólreiðum
Föstudagur 26. apríl 2013 kl. 09:36

Reykjanesmótið í götuhjólreiðum

Bestu hjólreiðamenn landsins hjóla frá Sandgerði á kosningadaginn.

Reykjanesmótið í Götuhjólreiðum verður haldið í 5. skipti á morgun, laugardag. Í ár ber mótið heitið, ORBEA Reykjanesmótið í götuhjólreiðum, en Intersport sem er innflutningsaðili á ORBEA hjólum styrkir framkvæmdina.

Í boði eru tvær vegalengdir: 32 km (byrjendaflokkur) eða 64 km (keppnisflokkur). Keppt verður laugardaginn 27. apríl kl. 10:00. Mæting er við sundlaugina í Sandgerði og ræst verður frá Hvalsnesvegi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og áður sagði þá er mótið nú haldið í 5. skipti en upphaf þess kemur frá tveimur öflugum frumkvöðlum, þeim Haraldi Birgi Hreggviðssyni og Inga Þór Einarssyni. Mótið hefur stöðugt orðið vinsælla í hjólaheiminum, en það má einkum rekja til góðs skipulags á mótahaldinu, sem og stórkostlegra verðlauna og útdráttarverðlauna, ásamt veglegum veitingum. Á þessum tíma hefur fjöldi keppenda margfaldast, úr  30 í það að vera tæplega 100 keppendur  sl. ár. Í ár er jafnvel búist við enn fleirum.

Tvö síðastliðin ár þá hefur Þríþrautardeild UMFN komið inn í þetta með þeim félögum og nú í ár er sjálfvirk tímataka í fyrsta skipti. Fjöldi fyrirtækja gefur verðlaun og Sandgerðisbær hefur verið einkar liðlegur í að veita aðgang að sundlauginni í verðlaunaafhendingu og slökun eftir mótið.

Mótið í ár er sérstaklega sterkt þar sem það verður úrtökumót fyrir íslenska hjólalandsliðið fyrir Smáþjóðaleikana. Sjón er því sögu ríkari um helgina fyrir þá sem vilja fylgjast með, en jafnframt viljum við biðja vegfarendur að vera þolinmóða og taka tillit til keppenda.

Nánari upplýsingar um mótið er á hjolamót.is, en skráningargjald er 2500 kr.  fyrir keppnisflokkinn og 1500 kr. fyrir byrjendaflokkinn.