Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reykjanesmótið: Grindavík og Keflavík vinna leiki sína
Miðvikudagur 15. september 2004 kl. 00:44

Reykjanesmótið: Grindavík og Keflavík vinna leiki sína

Grindavík vann öruggan sigur á Haukum á Reykjanesmótinu í körfuknattleik í kvöld, 110-85.

Liðin voru nokkuð jafnstíga framan af og var staðan í hálfleik 48-47 Grindvíkingum í vil. Haukarnir tóku við sér í þriðja leikhluta og náðu mest 10 stiga forskoti, en Grindvíkingar hrukku í gang og jafnaði Helgi Jónas Guðfinnsson metin, 71-71, með glæsilegu 3ja stiga skoti þegar leiktíminn leið út.
Í síðasta leikhluta hrundi svo leikur Hauka þar sem Grindvíkingar skoruðu 28 stig á móti 2 stigum á lokasprettinum og hrósuðu góðum sigri.

Tölfræði leiksins



Keflvíkingar lögðu erkifjendur sína frá Njarðvík í seinni leik kvöldsins, 101-84.

Leikurinn byrjaði ekki beint glæsilega fyrir Njarðvíkinga þar sem hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn. Keflvíkingar komust í 16-2, en Njarðvíkingar bættu ekki við stigum fyrr en meira en sex mínútur voru liðnar af leik.
Í öðrum leikhluta var allt annað að sjá til liðsins þar sem þeir sóttu án afláts og unnu forskotið upp jafnt og þétt. Þeir náðu að jafna leikinn, 39-39, og var nokkuð jafnt á með liðunum fram að hálfleik þar sem staðan var 47-45.
Keflvíkingar tóku stjórnina um leið og seinni hálfleikur hófst og héldu forystunni allt til leiksloka. Munurinn fór allt upp í 24 stig, en Njarðvíkingar réttu hlut sinn nokkuð áður en yfir lauk.

Gaman var að sjá til amerísku leikmanna liðsins, en Glover hjá Keflavík lofar sérlega góðu. Hann er heljarmenni að burðum og á eflaust eftir að setja svip sinn á lið Keflavíkur í vetur. Wiley hjá Njarðvík átti ekki mjög góðan leik í kvöld en hann sýndi hvers hann er megnugur með nokkrum góðum rispum.

Tölfræði leiksins

Grindvíkingar hafa unnið báða sína leiki í keppninni, Njarðvík og Keflavík sinn leikinn hvort lið og Haukar hafa tapað báðum sínum leikjum. Næstu leikir fara fram í Njarðvík á fimmtudaginn.

VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024