Reykjanesliðið sigraði stjörnuleikinn - Grindvíkingar unnu parakeppnina
Það var sannarlega sveiflukenndur leikur sem áhorfendur fengu að sjá í dag í Ásgarði þegar Reykjanesið og Landsbyggðin mættust í Stjörnuleik kvenna. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en lið Reykjaness byrjaði af krafti og komst 20 stigum yfir snemma en hafði að lokum tveggja stiga sigur,
112-110.
Reykjanesið var allsráðandi í fyrsta leikhluta og komst í 17-3 og 27-9 en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 40-18 og allt stefndi í rótburst hjá Reykjanesinu.
Lið Landsbyggðarinnar var ekki á því að gefast upp og náðu með seiglu og þrautseigju að minnka muninn og fengu tækifæri til að vinna leikinn en lokaskotið geigaði og lið Reykjaness stóð uppi sem sigurvegari.
Keflvíkingurinn Jacquline Adamshick var valin leikmaður leiksins en hún var með glæsilega þrennu 17 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar.
Nýr leikur var einnig kynntur til sögunnar á Stjörnudegi kvenna en það var paraskotkeppni. Fjögur lið tóku þátt og áttu þau öll sameiginlegt að keppendur eru körfuboltapör.
Pörin voru: Margrét Sturlaugsdóttir og Falur Harðarson. Pálína Gunnlaugsdóttir og Kjartan Kjartansson, Hafdís Hafberg og Marel Guðlaugsson og fjórða parið var Berglind Anna Magnúsdóttir og Jóhann Ólafsson.
Tvö lið fóru í úrslit en úrslitin fóru fram í hálfleik. Svo fór að Berglind Anna Magnúsdóttir og Jóhann Ólafsson úr Grindavík stópu uppi sem sigurvegarar á 34 sekúndum í úrslitum.
Frá þessu er greint á vef kki.is
Myndir kki.is: Maður leiksins Jacquline Adamshick að ofan
Neðri mynd: Jóhann Ólafsson og Berglind Anna Magnúsdóttir sigruðu paraskotkeppnina