Reykjanesbær styrkir hestamannafélagið Mána
-Lokið verður við uppbyggingu á keppnissvæði félagsins fyrir Íslandsmót í sumar.
Skrifað var undir samning milli hestamannafélagsins Mána og Reykjanesbæjar í dag. Samningurinn er til þriggja ára og hljóðar upp á tæpar 11,5 milljónir króna. Íslandsmót fullorðinna verður haldið á keppnissvæði Mána dagana 23. til 25. júní í sumar. Gert er ráð fyrir um 2000 gestum á mótið.
Samningurinn felur í sér að lokið verði við uppbyggingu á keppnissvæði félagsins fyrir Íslandsmót fullorðinna sem haldið verður á Mánagrund 23. – 25. júní í sumar.
Hestamannafélagið fagnar 40 ára starfsafmæli á næsta ári og mun þá að auki halda Íslandsmót barna og unglinga um haustið 2005 en 22 ár eru síðan félagið hefur haldið Íslandsmót.
Gert er ráð fyrir a.m.k. 2.000 gestum á Íslandsmótið í sumar en þangað verður stefnt helstu hestamönnum og gæðingum landsins. Máni mun standa myndarlega að mótinu og má gera ráð fyrir því að Reykjanesbær verði iðandi af mannlífi keppnishelgina en sjónvarpað verður frá úrslitunum á sunnudeginum.
Meðal framkvæmda samkvæmt samningi eru: lagning reiðstígs frá svæðinu að landamerkjum Garðs, gerð upphitunarbrautar, lenging manar, gerð bílastæðis, gerð nýs dómarahúss við hringvöll og lýsing á reiðstíg sem liggur í gegnum félagssvæði Mána.
Reykjanesbær vill með samningnum stuðla að enn frekari uppbyggingu barna- og unglingastarfs Mána sem hefur verið til fyrirmyndar undanfarin ár.
Samningurinn er svokallaður framvindusamningur þ.e. greiðslur fara fram samkvæmt úttekt fulltrúa frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjanesbæjar hverju sinni. Skýrslur um verkstöðu munu jafnframt berast framkvæmdastjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs.
Framkvæmdum skal lokið fyrir 15. júní 2004 en heildarkostnaður er áætlaður kr. 11.454.500. Greiðsluþátttaka Mána, auk sjálfboðavinnu félagsmanna eru 2 milljónir króna. Greiðsla Reykjanesbæjar er því um 3.150.000 árlega út samningstímann eða samtals kr. 9.454.500. Gildistími samnings er frá undirritun hans til 31. desember 2006.
Leitað verður leiða til að fá sem hagstæðust verð hverju sinni auk þess sem félagsmenn Mána munu leggja fram sjálfboðavinnu eftir því sem við verður komið.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar og formaður Mána undirrituðu samninginn sem fram fór við Mánahestinn eftir Erling Jónsson.
Myndin: Árni Sigfússon bæjarstjóri og Margeir Þorgeirsson formaður hestamannafélagsins Mána undirrita samninginn í dag. Á hestunum fyrir aftan þá eru f.v. Sveinbjörn Bragason og Frans frá Feti, Camilla Petra Sigurðardóttir og Strákur frá Hamrahóli, Elva Björk Margeirsdóttir og Dimma frá Oddsstöðum VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson