Reykjanesbær heiðrar íþróttafólk
Sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir var kjörinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2008 í sérstöku hófi á gamlársdag. Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Steinarsson var annar í kjörinu og körfuboltakappinn Gunnar Einarsson var þriðji.
Erla Dögg var ekki viðstödd afhendingu og tók Kristín systir hennar við bikurum sem sundkona ársins og Íþróttamaður Reykjanesbæjar.
Tvöhundruð sextíu og fimm Íslandsmeistarar úr bæjarfélaginu fengu viðurkenningu en flestir komu frá körfuknattleiksdeild Keflavíkur eða 99. Elsti íþróttamaðurinn í kjöri til Íþróttamanns Reykjanesbæjar var Sigurður Albertsson en hann var kjörinn kylfingur ársins hjá Golfklúbbi Suðurnesja.
Víkurfréttir tóku þá Gunnar Einarsson og Guðmund Steinarsson tali eftir verðlaunaafhendinguna þar sem rætt var um ný liðið íþróttaár og hvað væri framundan á þessu ári.