Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Rekstur GS gekk vel - stærsta golfmót ársins verður í Leiru 2011
Þriðjudagur 7. desember 2010 kl. 12:48

Rekstur GS gekk vel - stærsta golfmót ársins verður í Leiru 2011

Rekstur Golfklúbbs Suðurnesja gekk vel á árinu og skilaði 4,5 millj. kr. hagnaði. Framundan er stórt ár hjá GS en Íslandsmótið í höggleik verður í Leirunni næsta sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurður Garðarsson var endurkjörinn formaður á aðalfundi GS í Leirunni í gær. Hann flutti skýrslu stjórnar þar sem fram kemur m.a. að góður árangur hafi náðst í starfsemi klúbbsins og hægt verði að nota hagnað til fjárfestinga í vélum og til framkvæmda á næsta ári. Véla- og tækja kostur GS er kominn til ára sinna og verður hann endurnýjaður á næstu fimm árum. Það er von okkar að með þessu sjái klúbbfélagar að með aðhaldi og ráðdeild í rekstri, næst árangur sem klúbburinn mun njóta góðs af um árabil,“ sagði Sigurður.

Starfsemi GS í öðrum þáttum gekk einnig vel á árinu. Þátttaka í mótum var mjög góð og tekjur af mótahaldi skila klúbbnum verulegum tekjum. sem skipta miklu máli fyrir reksturinn. Um 500 félagar eru í GS en ef vel ætti að vera þyrfti að fjölga félögum í 7-800 og eitt af markmiðum stjórnarinnar er að ná fram meiri fjölgun á næstu árum.

Karen Guðnadóttir var kjörinn kylfingur ársins hjá GS en hún varð Íslandsmeistari í höggleik og í holukeppni í stúlknaflokki 17-18 ára. Hún og fleiri GS félagar æfðu undir stjórn nöfnu hennar Sævarsdóttur sem ráðin var íþróttastjóri GS í upphafi árs. Starf hennar er þegar farið að bera árangur og forráðamenn GS horfa björtum augum til framtíðarinnar í afreksmálum. Meira fjármagn verður lagt í barna- og unglingaþjálfun. GS hefur hampað Íslandsmeistaratitli í karla- eða kvennaflokki alls 17 sinnum í 46 ára sögu Íslandsmóts í golfi. Það þykir gott hjá ekki fjölmennari klúbbi.

Stjórnin lagði til um 4% hækkun árgjalda sem var samþykkt og er hæsta einstaklingsgjald hjá GS nú 62 þús. kr.

Jóhann Magnússon, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar sagði að klúbbfélagar GS ættu að vera stoltir af góðum árangri. Starfið væri metnaðarfullt og ábyrgt og vel væri haldið utan um barna- og unglingastarf. Jóhann sagði að ÍRB hefði gert könnun nýlega á upphæðum æfingagjalda hjá íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu til að bera saman við félögin í Reykjanesbæ. GS ásamt nær öllum félögum í Reykjanesbæ væru að bjóða lægri æfingagjöld en félög á höfuðborgarsvæðinu en ekki síðri þjónustu.

Stjórn GS er þannig skipuð:
Formaður: Sigurður Garðarsson
Varaformaður: Páll Ketilsson
Gjalkeri: Karitas Sigurvinsdóttir
Ritari: Þröstur Ástþórsson
Meðstjórnendur: Björn V. Skúlason, Helga Sveinsdóttir, Snæbjörn G. Valtýsson.

Bræðurnir Hólmgeir og Guðmundur Hólmgeirssyni afhentu GS hlutabréf sem Hólmgeir Guðmundsson, faðir þeirra átti í hlutafélaginu Hrúðurnesi en félagið var stofnað 1965 vegna landakaupa í Leirunni fyrir golfvöll. Á milli þeirra bræðra er Sigurður Garðarsson, formaður GS.