Réðu ekki við Keflavík á heimavelli-Umfjöllun og myndir
Keflavíkurstúlkur unnu sigur á Grindvík í fyrsta leiknum í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik, 88-71.
Meistararnir í Keflavík voru í bílstjórasætinu frá byrjun, en leikurinn fór fram á heimavelli þeirra. Mikið var skorað í upphafi þar sem Bryndís Guðmundsdóttir fór fyrir Keflvíkingum og Rita Williams var prímusmótorinn í liði Grindavíkur.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 30-21 en í upphafi þess næsta var sem Keflvíkingum væri fyrir unað að hitta í körfuna. Birna Valgarðsdóttir skoraði tvö stig í upphafi, en síðan var löng bið þar til Anna María Sveinsdóttir braut loks ísinn og setti 5 stig á stuttum tíma og breytti stöðunni úr 32-26 í 37-26.
Þá var Rita farin útaf vegna villuvandræða og áttu liðsfélagar hennar fá svör. Keflavík jók muninn í 14 stig, 47-33, fyrir hálfleik og var ljóst að gestirnir máttu hafa sig allar við.
Leikurinn var nokkuð jafn en að sama skapi tilþrifalaus í upphafi seinni hálfleiks. Grindvíkingar komu hins vegar sterkar upp og sóttu verulega í sig veðrið. Vörnin hrökk í gang og Keflvíkingar gerðu sig sekar um einbeitingarleysi í sókninni.
Í lokaleikhlutanum minnkuðu Grindvíkingar muninn niður í 8 stig, 62-54, eftir slakan kafla Keflvíkinga. Þá hrökk sóknarleikur Grindvíkinga í baklás þar sem þær leituðu of mikið að Ritu sem átti í miklu basli þar til hún fór loks af velli með 5 villur undir lokin.
Besti maður vallarins, Bryndís Guðmundsdóttir, var í aðalhlutverki á lokakaflanum þar sem hún skoraði grimmt, tók fráköst og spilaði fasta vörn. Alex Stewart átti einnig góða innkomu undir lokin og var löngu orðið ljóst í hvað stefndi.
Bryndís, Alex og Birna náðu allar tvöfaldri tvennu í liði Keflavíkur, Bryndís var með 22 stig og 10 fráköst, Alex með 15 og 11 og Birna með 20 og 10. Rita var með 27 stig og 10 fráköst fyrir Grindavík og Erla Reynisdóttir með 15 stig.
Næsti leikur verður í Grindavík á laugardag og er víst að Keflavík vinnur ekki eins öruggan sigur þar. Henning Henningsson, þjálfari Grindavíkur, sagði að Keflavík hafi leikið mun betur í kvöld. „Þær voru að leggja meira á sig í vörninni og voru með betra flæði í sókninni. Svo megum við ekki treysta of mikið á Ritu. Stelpurnar verða að geta spilað sóknina sjálfar án þess að leita alltaf til hennar. En það má slípa þetta allt saman fyrir næsta leik.“
Sverrir Þór Sverrisson hjá Keflavík var afar sáttur við framlag sinna stúlkna í kvöld. „Þetta var góður sigur á hörkuliði. Við spiluðum af skynsem undir restina og staðan er eitt núll, en það er nóg eftir af þessu einvígi.“
VF-myndir/Bjarni