Redo reddaði Keflavík í Kópavogi
Patrik Redo gerði sigurmark Keflavíkur á Kópavogsvelli í kvöld þegar Keflvíkingar lögðu HK 2-1 í fyrsta útileik sínum á leiktíðinni. Eftir sigurinn hafa Keflvíkingar fullt hús stiga eða 9 stig eftir þrjár umferðir og tróna á toppi Landsbankadeildarinnar ásamt Fjölnismönnum sem lögðu Grindavík 1-0 á Grindavíkurvelli. Jón Gunnar Eysteinsson jafnaði metin fyrir Keflavík í 1-1 eftir að heimamenn höfðu komist yfir en Redo innsiglaði sigurinn með góðu skoti í teignum í hægra markhornið.
Leikar fóru fremur hægt af stað í Kópavogi í kvöld og ekki var mikið um marktækifæri framan af leik. Sóknarleikur Keflavíkur var fremur máttlaus en vörnin stóð sína vakt með þokka. Nokkuð jafnræði var með liðunum og hjá Keflvíkingum dró ekki almennilega til tíðinda fyrr en á 37. mínútu þegar Símun Samuelsen fékk fína sendingu frá Guðmundi Steinarssyni hægra megin í teignum en skaut fram hjá. Þetta marktækifæri vakti Keflvíkinga af værum blundi og fram að hálfleik voru gestirnir mun betri en heimamenn.
Hans Mathiesen átti skot sem fór naumlega yfir HK markið á 39. mínútu og aðeins mínútu síðar áttu Keflvíkingar fyrirgjöf af hægri kanti sem fór á fjærstöng. Símun Samuelsen skallaði boltann aftur inn í teig á kollinn á Guðjóni Árna sem skallaði boltann svo rétt fram hjá marki HK. Á 43. mínútu var Guðmundur Steinarsson enn eina ferðina að spila uppi liðsfélaga sinn og nú fann hann Magnús Sverri Þorsteinsson sem lék á einn varnarmann HK í teignum og lét vaða á markið en Ögmundur Ólafsson var vel vakandi í marki heimamanna og varði fast skot Magnúsar. Staðan í leikhléi var því 0-0 en líflegar lokamínútur í fyrri hálfleik gáfu góð fyrirheit inn í síðari hálfleikinn.
Patrik Redo var iðinn við kolann í kvöld og á 49. mínútu fékk hann góða stungusendingu frá Guðmundi Steinarssyni inn fyrir HK vörnina en skaut yfir markið úr frábæru færi og hefði vel getað gert betur í stöðunni.
Heimamenn í HK refsuðu Keflvíkingum fyrir það að hafa farið illa með gott færi og komust í 1-0 strax í næstu sókn en þar var Mitja Brulc að verki. Brulc fékk sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur og skaut að marki í þeirri svipan sem hann virtist vera felldur. Skotið fór ekki langt þar sem Brulc skóflaði boltanum upp í loft og yfir Ómar í markinu.
Aukið fjör færðist í leikinn við mark heimamanna og Keflvíkingar gerðu breytingar á sínu liði. Á skömmum tíma fóru af velli þeir Magnús Þorsteinsson, Guðmundur Steinarsson og Hans Mathiesen en í þeirra stað komu þeir Þórarinn Kristjánsson, Hörður Sveinsson og Jón Gunnar Eysteinsson. Sá síðastnefndi var ekki lengi að láta til sín taka og nýtti vel þessar fyrstu mínútur sínar í sumar.
Á 80. mínútu leiksins áttu Keflvíkingar aukaspyrnu á hægri kanti og sendu boltann inn í teig. Hallgrímur Jónasson var með kollinn í boltanum og þaðan datt hann í teiginn og við fætur Jóns Gunnars sem þrumaði boltanum í netið og jafnaði í 1-1.
Ekki leið á löngu uns Keflvíkingar skoruðu öðru sinni en það gerði Patrik Redo á 84. mínútu leiksins. Hólmar Örn Rúnarsson fíflaði skemmtilega nokkra varnarmenn HK og skaut að marki en boltinn fór í Redo sem náði valdi á honum og sendi boltann í hægra hornið og tryggði Keflavík sigurinn í leiknum og stigin þrjú.
Töluverð breyting var gerð á varnarlínu Keflavíkur fyrir leikinn þar sem þeir Guðmundur Viðar Mete og Nicolai Jörgensen léku ekki með sökum meiðsla. Í þeirra stað var varnarlína Keflavíkur skipuð þeim Kenneth Gustafsson og Hallgrími Jónassyni í miðvarðastöðunni og Guðjón Árni Antoníusson í hægri bakverði. Í vinstri bakverðinum var svo Brynjar Guðmundsson og leysti hann stöðuna af miklu ágæti.
Næsti deildarleikur Keflavíkur er engin smá viðureign þegar Skagamenn koma í heimsókn á Sparisjóðsvöllinn mánudaginn 26. maí kl. 20:00 og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Byrjunarlið Keflavíkur
Ómar Jóhannsson, markvörður, Guðjón Árni Antoníusson, Kenneth Gustafsson, Guðmundur Steinarsson, Símun Samuelsen, Magnús Þorsteinsson, Brynjar Guðmundsson, Patrik Redo, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Rúnarsson og Hans Mathiesen.
Varamenn
Jón Gunnar Eysteinsson, Árni Freyr Ásgeirsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Þórarinn Brynjar Kristjánsson, Hörður Sveinsson og Högni Helgason.
VF-Mynd/ [email protected]– Jón Gunnar Eysteinsson fagnar sínu fyrsta deildarmarki fyrir Keflavík.