Ray tognaði aftan í læri
Ray Anthony Jónsson varð frá að víkja í gærkvöldi þegar Grindavík rassskellti Breiðablik 3-6 á Kópavogsvelli í Landsbankadeild karla. Þegar rétt rúmur hálftími var liðinn af leiknum meiddist Ray í aftanverðu læri og lék ekki meira með. Víkurfréttir náðu tali af Ray sem sagði helmingslíkur á því að hann væri orðinn góður fyrir mánudaginn.
,,Ég tognaði aftan í hægra læri. Fyrst hélt ég að þetta væri meira því ég heyrði einhvern smell en í seinni hálfleik vorum við sjúkraþjálfarinn að skoða þetta og gerðum okkur grein fyrir því að þetta væri bara tognun,” sagði Ray í samtali við Víkurfréttir. Sigurinn í gær var fyrsti sigur Grindavíkur í Landsbankadeildinni en næsti leikur liðsins er gegn FH og fer leikurinn fram á Grindavíkurvelli.
,,Ég veit ekki hvernig þetta verður með næsta leik, þetta gæti tekið einhvern smá tíma hjá mér en ég fer vonandi til læknis í dag eða á morgun,” sagði Ray sem kvaðst sáttur við Michael bróðir sinn sem kom inn í hans stað í gær.
,,Ég var mjög ánægður með Michael. Hann sýndi að hann var klár í þennan slag. Ég vissi að þegar senterarnir okkar myndu fara að skora þá færi allt í gang og það gerðist svo sannarlega. Völlurinn í gær var blautur og menn voru að gera mistök á báða bóga,” sagði Ray.
Sjálfur taldi Ray að helmingslíkur væru á því að hann yrði með á mánudag gegn FH en hann bjóst við hörkuslag gegn Hafnarfjarðarliðinu.
VF-Mynd/ [email protected] – Ray liggur í vellinum í gær, þjáður af meiðslum sínum.