Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ray reddaði stiginu
Þriðjudagur 18. júlí 2006 kl. 23:44

Ray reddaði stiginu

Ray Anthony Jónsson gerði sitt fyrsta mark fyrir Grindvíkinga í kvöld þegar gulir og glaðir gerðu 1-1 jafntefli við Fylki í Landsbankadeild karla. Grindvíkingar eru í 6. sæti deildarinnar með 14 stig en Fylkismenn í 2. sæti með 17 stig.

Kofi Dakinah var að leika sinn fyrsta leik fyrir Grindavík í kvöld en hann kemur frá Danmörku og lofar góðu. Hávaxinn varnarmaður og sterkur í loftinu. Kofi var fremur svifaseinn í kvöld en á örugglega eftir að reynast Grindvíkingum vel þegar fram líða stundir.

Gestirnir úr Árbænum voru sprækir í upphafi leiks og pressuðu vel á heimamenn. Grindvíkingar áttu þó fyrsta alvöru færið á 6. mínútu leiksins þegar Jóhann Þórhallsson vippaði yfir Fjalar í Fylkismarkinu en boltinn fór hátt yfir.

Á 17. mínútu kom Páll Einarsson Fylki í 1-0 þegar hann fékk sendingu frá Eyjólfi Héðinssyni af hægri kantinum. Páll skaut að marki rétt utan við vítateig og boltinn hafnaði í netinu. Grindavík 0-1 Fylkir.

Á 26. mínútu urðu nokkrar tafir á leiknum þegar Jóhannes Valgeirsson, dómari leiksins, þurfti aðhlynningu sjúkraþjálfara sökum meiðsla í læri. Eftir aðhlynningu beit Jóhannes á jaxlinn og hélt áfram að dæma leikinn.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks áttu Grindvíkingar aukaspyrnu nokkuð utan við vítateig Fylkismanna. Boltinn barst inn í teig og þar var kominn Ray Anthony Jónsson sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Grindavík 1-1 Fylkir og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Upphaf síðari hálfleiks dróst á langinn því Jóhannes Valgeirsson sá sér ekki fært um að dæma restina af leiknum. Magnús Þórisson kom í hans stað og stóð sig með prýði.

Fylkismenn áttu gott færi þegar daninn Christian Christiansen skallaði framhjá Grindavíkurmarkinu eftir fína fyrirgjöf. Strax í næstu sókn átti Óskar Örn ágætt skot fyrir Grindvíkinga sem fór hægra megin framhjá markinu.

Ljóst var að Grindvíkingar söknuðu sárt leikmanna á borð við Óla Stefán Flóventsson, Paul McShane og Mounir Ahandour en þeir gulu börðust af krafti þrátt fyrir langan meiðslalista hjá liðinu.

Grindvíkingar voru ívið sterkari í síðari hálfleik en Fylkismenn beittu oft snörpum skyndisóknum sem voru hættulegar. Hvorugu liði tókst þó að bæta við marki og lokatölur því 1-1.

„Við áttum að vinna þennan leik því við áttum hættulegri færi en Fylkir,“ sagði markaskorarinn Ray Anthony Jónsson í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. „Það er vonandi að strákarnir sem eru meiddir fari að detta inn í liðið því næsti leikur er gegn Keflavík og það verður gaman að spila þann leik,“ sagði Ray en Keflavík og Grindavík mætast í Landsbankadeildinni þann 31. júlí næstkomandi.

Staðan í deildinni

VF-myndir/ [email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 




 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024