Rautt jafntefli
Fylkir og Grindavík skildu jöfn 1-1 í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í gær. Í fyrri hálfleik höfðu Grindvíkingar vindinn í bakið og gerðu harða atlögu að marki Fylkismanna. Það er lýsandi fyrir leik Grindvíkinga þar sem þeir hafa sýnt mikil batamerki í leikjum sínum að undanförnu. Umsnúningur varð þó í seinni hálfleik og sóttu Fylkismenn þá mun stífar að Grindvíkingum.
Á 6. mínútu var það Paul McShane sem sendi boltan af hægri kanti fyrir mark Fylkismanna og fann þar Grétar Ólaf sem tók viðstöðulaust, en hárfínt, við boltanum og renndi honum í hægra hornið. Fylkir 0-1 Grindavík.
Heimamenn tóku lítið eitt við sér eftir skellinn og á 15. mínútu átti Valur Fannar fínt skot sem Albert Sævarsson varði örugglega. Skömmu síðar gerði Þórhallur Dan skelfileg mistök í vörn Fylkis, Grindvíkingar áttu þá er virtist, fremur slaka sendingu inn fyrir vörn Fylkis en Þórhallur missti boltann framhjá sér. Grétar Ólafur færði sér það í nyt, náði boltanum og skoti sem hafnaði í innanverðri stönginni. Eftir þetta færi pressuðu Grindvíkingar vel á Fylki og á kafla virtist sem gestirnir væru einum fleiri á vellinum, svo þung var pressan. Undir lok fyrri hálfleiks áttu Fylkismenn ágætis færi, þar voru þeir Sævar Gíslason og Björgólfur Takefusa á ferðinni en Albert í markinu sá við þeim. Áður en Kristinn Jakobsson flautaði til hálfleiks fékk Eysteinn Hauksson að líta gula spjaldið eftir að hafa tæklað Björgólf Takefusa hressilega.
Allt annar bragur var á leik Fylkis eftir leikhlé og höfðu þeir gert eina breytingu á liði sínu. Þorbjörn Atli Sveinsson fór þá útaf og inn á kom Gunnar Þór Pétursson. Heimamenn gerðu þá ákafa atlögu að marki Grindavíkur og uppskáru mark eftir mistök í vörn Grindavíkur. Ray Anthony Jónsson, sem brotið hafði á bak aftur margar sóknir Fylkismanna, missti boltann undir sig og Ólafur Páll Snorrason gekk á lagið með skoti sem Albert varði vel en náði ekki að halda boltanum. Björgólfur Takefusa, eins og sönnum framherja sæmir, fylgdi vel á eftir skotinu og skoraði. Fylkir 1-1 Grindavík eftir 6 mínútna leik í seinni hálfleik. Nauðvörn Grindvíkinga stóð af sér orrahríð Fylkis og mikil harka færðist í leikinn, Momir Mileta fékk að líta gula spjaldið er hann braut illa á Sævari Þór sem í kjölfarið náði sér aldrei aftur á strik í leiknum.
Á 66. mínútu var Óskari Haukssyni skipt útaf í liði Grindavíkur og inn á kom Alfreð Jóhannsson. Nokkrum mínútum síðar, þegar Fylkismenn voru við það að brjóta ísinn, fékk Þórhallur Dan að líta rauða spjaldið. Þórhallur var eitthvað ósáttur og henti Eysteini Haukssyni í jörðina og Kristinn Jakobsson veifaði reisupassanum í kjölfarið. Einum leikmanni færri virtist ekkert lát vera á sóknarþunga Fylkismanna en hægt og rólega færðu þeir sig aftar á völlinn.
Alfreð Jóhannsson, sem kom inná sem varamaður, staldraði stutt við á vellinum. Hann fékk gult spjald fyrir brot á 77. mínútu og einungis 5. mínútum síðar var honum vikið af leikvelli með sínu öðru gula spjaldi. Jafnt í liðum og skammt til leiksloka. Liðin skiptust á að sækja en rautt jafntefli var það. Grindvíkingar geta, eins og öll lið, vel við unað að sækja stig í Árbæinn.
VF-mynd/ úr safni