Ragnheiður Sara sigraði á sterktu móti í Frakklandi
- Nú er það bara að halda fyrsta sætinu
Njarðvíkingurinn Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir fór með sigur af hólmi í sterku alþjóðlegu Crossfitmóti sem haldið var í Frakklandi um helgina. Sara eins og hún er jafnan kölluð, byrjaði ekki að stunda Crossfit fyrr en í lok árs 2012 og er einungis 21 árs gömul. Hún var ein af 7000 konum sem sóttu þátttöku í því móti. Einnig var Sara Hraustasta kona Íslands, er hún sigraði stigakeppni Þrekmótaraðarinnar árið 2013
Nýlega byrjaði Sara að stunda ólympískar lyftingar en hún hafnaði í 3. sæti á Norðurlandamótinu á dögunum. Hún komst í landsliðið í þeirri grein eftir að hafa keppt á aðeins einu móti. Hún hélt svo til Kýpur skömmu síðar og hafnaði í 2. sæti á sterku Crossfitmóti. Síðustu helgi gerði hún sér lítið fyrir og sigraði alþjóðlegt mót í Frakklandi þar sem margt öflugasta Crossfitfólk í Evrópu mætti til leiks. „Ég er alltaf að bæta mig. Nú er það bara að halda fyrsta sætinu,“ sagði Sara í samtali við VF en viðtal við þessa afrekskonu mun birtast í blaði okkar á fimmtudag. Eins verður Sara og Crossfitfólk á Suðurnesjum í brennidepli í næsta þætti Sjónvarps Víkurfrétta sem sýndur verður á ÍNN á fimmtudaginn 26. júní klukkan 21:30.