Ragnheiður Sara lenti í 3. sæti á heimsleikunum í crossfit
Katrín Tanja Davíðsdóttir er „The fittest woman on earth“
Heimsleikunum í crossfit var að ljúka núna rétt í þessu þar sem að Katrín Tanja Davíðsdóttir bar sigur úr býtum í kvennaflokki eftir magnaða frammistöðu í síðustu grein mótsins þar sem að Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, sem var í forystu fyrir síðustu grein og hafði leitt megnið af mótinu, náði sér engan veginn á strik og þurfti að horfa á eftir titlinum í hendur Katrínar og gera sér 3. sætið að góðu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir bar sigur úr býtum og kemur með titilinn aftur heim til Íslands.
Árangur Söru er engu að síður frábær, hennar fyrstu heimsleikar og það á enginn í crossfit heiminum eftir að gleyma nafninu hennar í bráð. Sara hefur hlotið mikla athygli á meðan leikarnir hafa staðið yfir og á eflaust eftir að gera aðra atlögu að titlinum á komandi árum en árið hennar hefur verið óslitin sigurganga sem því miður kom á endastöð í kvöld.
Íslendingar gerðu frábæra hluti á mótinu en auk þess sem að tvær af þremur konum sem komust á verðlaunapall voru íslenskar þá náði Hvergerðingurinn Björgvin Karl Guðmundsson þriðja sætinu í karlaflokki sem er í fyrsta sinn sem að íslenskur karlmaður kemst á pall á leikunum.
Við óskum íslensku keppendunum til hamingju með frábæran árangur á mótinu og er óhætt að segja að þau hafi verið landi, þjóð og sjálfum sér til mikils sóma.