Ragnheiður Sara hefur leik á Heimsleikunum í dag
4 íslenskum konum spáð góðu gengi
Heimsleikarnir í crossfit hefjast í Carson í Kaliforníufylki í dag. Þetta er mót allra móta í íþróttinni og hefur vegur keppenda á leikana verið langur og erfiður en undankeppnin hófst í lok febrúar og lauk í enda maí þar sem að íslenskar konur fóru hamförum í Evrópuriðlinum og tryggðu sér 4 af 5 sætum sem í boði voru í kvennaflokki og munu því vera áberandi á leikunum í Carson.
Framganga Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgist með fréttum. Sara, eins og hún er oftast kölluð, er að fara á sínu fyrstu Heimsleika í crossfit og tryggði sér þátttökuréttinn með látum þar sem að hún vann kvennaflokk Evrópuriðilsins sannfærandi og náði ofan á það bestum árangri í heiminum í einni af greinum undankeppninnar, en allir riðlar heimsins fara í gegnum sömu síuna og eiga við sömu greinar til að skera úr um hverjir fara á leikana. Fyrir vikið hefur nafn Söru verið mikið á milli tannana á fólki í crossfit heiminum, sem fer ört vaxandi, og er henni spáð þónokkurri velgengni í Carson en spekingar vestanhafs hafa látið hafa það eftir sér að líkurnar á því að íslensk kona eða jafnvel konur muni verma efstu þrjú sætin á leikunum séu miklar.
Sara hefur aðeins æft crossfit í þrjú ár og hefur því náð merkilega langt á þeim stutta tíma. Hún leggur allan sinn tíma að veði fyrir íþróttina og æfir að jafnaði þrisvar á dag samhliða því að þjálfa hjá Crossfit Suðurnes en líkurnar á því að finna hana í æfingahúsnæði stöðvarinnar eru yfirgnæfandi að staðaldri. Íþróttin er fjölbreytt og reynir jafnt á styrk, úthald og samhæfingu sem þýðir að til að vera í fremstu röð þarf að fórna ansi miklu og skipuleggja tíma sinn vel.
Lokaundirbúningur Söru hefur staðið yfir í að verða mánuð þar sem hún hefur æft ásamt Hvergerðingum Björgvini Karli Guðmundssyni og öðrum erlendum keppendum í Manchester, Mallorca og nú síðustu vikur í Kaliforníu til að venjast hita og aðstæðum.
Fyrir þá sem þekkja til vita keppendur ekki fyrirfram hvaða þrautir verður lagt fyrir þá á leikunum svo undirbúningur fyrir slíkt mót er gríðarlega mikilvægur og þarf að snerta á flestum sviðum líkamlegrar áreynslu. Sumar greinar gætu hentað sumum keppendum betur en aðrar, t.a.m. var sjósund hluti af einni greininni á Heimsleikunum í fyrra svo ekki er nóg að geta snarað upp 80 kg eða híft sig upp 100 sinnum. Þeir sem vinna Heimsleikana eru krýndir „The fittest on earth“ og bera þann titil nokkuð réttilega.
Keppt verður í 11 greinum yfir 5 daga og mun því mikið mæða á þeim 40 körlum, 40 konum og 40 liðum sem etja munu kappi í Carson.
Víkurfréttir munu fylgjast vel með gangi mála í Carson alla vikuna og flytja fréttir af framgangi mála hjá Söru Sigmundsdóttur. Fyrir þá sem vilja fylgjast með í gegnum netið verður bein útsending í gegnum heimasíðu leikana.