Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ragnheiður Sara er efst í Evrópu
Ragnheiður Sara er tveimur sætum ofar en Annie Mist á heimsvísu.
Þriðjudagur 3. mars 2015 kl. 14:51

Ragnheiður Sara er efst í Evrópu

Crossfit-konan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er efst allra kvenna í Evrópu og í 7. sæti á heimsvísu eftir fyrstu undankeppni af fimm fyrir hina gríðarsterku Crossfit-leika sem fara fram í Kaliforníu seinna á þessu ári en Ragnheiður Sara keppir undir merkjum Crossfit Suðurnes.

Ragnheiður Sara, sem hefur átt frábært ár, náði best 222 endurtekningum í fyrra WOD-i undankeppninnar og lyfti síðan 105 kg í jafnhöttun (e. clean & jerk). Það setur hana í efsta sæti í Evrópuriðli undankeppninnar og í 7. sæti á heimsvísu sem er sannarlega frábær árangur. T.a.m. er tvöfaldur Crosfit-leika sigurvegari, Annie Mist Þórisdóttir, tveimur sætum neðar á heimsvísu en íslenskar konur verma þrjú efstu sæti Evrópulistans og 4 af efstu 6. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Crossfit-leikarnir eru stærsta keppni ársins í íþróttinni og fara fram í Carson í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum 21.-26. júlí á þessu ári og eru það 60 efstu karlarnir og 60 efstu konurnar sem skora hæst í meðaltali í 5 æfingasettum sem að komast á leikana. Mikil leynd ríkir yfir innihaldi æfinganna og fá keppendur ekki langan tíma til að æfa sig áður en þeir þurfa að taka æfinguna. Það er því ennþá löng leið fyrir Ragnheiði Söru að yfirstíga áður en hún vinnur sér inn sæti á leikunum en byrjunin gæti vart verið betri.

Önnur æfing í undankeppninni verður gefin út þann 5. mars og hafa keppendur til 9. mars að skila skori úr þeirri æfingu. Öllum fimm æfinga-settunum verður lokið þann 30. mars. 

Víkurfréttir munu fylgjast vel með gangi mála hjá Ragnheiði Söru og flytja úrslit og stöðu mála í hverri viku í mars mánuði.

Fyrir þá sem vilja kynna sér leikana frekar er bent á slóð keppninnar http://games.crossfit.com/