Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ragnarsfjölskyldan að taka yfir hjá UMFN
Ein gömul og góð af Ragnari í græna búningnum.
Laugardagur 10. ágúst 2013 kl. 09:05

Ragnarsfjölskyldan að taka yfir hjá UMFN

Ragnar Halldór nýr aðstoðarþjálfari

Ragnar Halldór Ragnarsson er kominn aftur í heimahagana í Njarðvík og mun verða hægri hönd Einars Árna Jóhannssonar í Dominos-deild karla í körfubolta. Ragnar hefur verið búsettur í Danmörku undanfarin þrjú ár en áður lék hann með Njarðvíkingum og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu. Ragnar segir að hann hafi jafnvel hug á því að leggja fyrir sig þjálfun seinna meir, en með þessu verkefni eru fyrstu skrefin stigin. „Þetta er spennandi verkefni og það er mikill heiður að Einar hafi nálgast mig varðandi þetta starf,“ segir Ragnar í samtali við Víkurfréttir. Friðrik Ragnarsson bróðir Ragnars er formaður Njarðvíkinga um þessar mundir en hann hefur þjálfað liðið og leikið áður með því um árabil. Ragnar segir auðvelt að leita til stóra bróður hvað varðar ráð enda sé hann hokinn af reynslu.

Litlu frændurnir í hópnum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Synir Friðriks, og jafnframt frændur Ragnars, þeir Elvar Már og Ragnar Helgi eru leikmenn hjá meistaraflokki Njarðvíkur. Ragnar segist hlakka til að sjá frændur sína í hóp í vetur en Elvar hefur nú þegar sannað sig sem einn af efnilegri körfuboltamönnum Íslands. „Hann er alveg óstöðvandi. Hann vill helst æfa tvisvar á dag og verður bara betri og betri,“ segir Ragnar um Elvar, sem mun að öllum líkindum halda til Bandaríkjanna til náms að loknu tímabili. Þegar blaðamaður spyr hvort fjölskyldan sé að taka yfir körfunni í Njarðvík þá hlær Ragnar og svarar; „Jú ætli það ekki bara.“

Ragnar segir að Njarðvíkingar geti komið mörgum á óvart en með tilkomu Egils Jónassonar, Halldórs Halldórssonar og Snorra Hrafnkelssonar sé komin aukin hæð í liðið sem bætir hópinn verulega. „Við eigum góða möguleika á því að stríða toppliðunum,“ segir Ragnar að lokum. 

Bræðurnir Elvar og Ragnar Friðrikssynir unnu saman Íslandsmeistaratitil í vor. Mynd frá Elvari.