Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Rændar í sigurleik í Laugardalshöll
Föstudagur 14. mars 2008 kl. 12:26

Rændar í sigurleik í Laugardalshöll

Njarðvíkurkonur gerðu góða ferð í Laugardalshöll í gærkvöldi er þær höfðu sigur gegn Ármanni í 1. deild kvenna í körfuknattleik. Lokatölur leiksins voru 52-68 Njarðvíkingum í vil sem eiga 3. sætið í deildinni nokkuð víst þegar örfáir leikir eru eftir af deildarkeppninni. Snæfellingar hafa þegar tryggt sér sæti í efstu deild að ári.
Sigur Njarðvíkinga í gærkvöldi var ekki tekinn út með sældinni því þegar sigurreifar Njarðvíkurkonur héldu til búningsklefa að leik loknum áttuðu þær sig á því að óprúttnir aðilar höfðu farið ránshendi um búningsklefana.
Meðal hluta sem saknað var voru gsm sími, i-Pod og eitthvað af fatnaði. Lögregla var kölluð á svæðið og tók skýrslu af málinu. Unndór Sigurðsson þjálfari Njarðvíkurkvenna sagði að þrátt fyrir áfallið hefðu leikmennirnir borið sig vel.
Stigahæstar í liði Njarðvíkur voru Dagmar Traustadóttir með 26 stig og Hanna Valdimarsdóttir og Sæunn Sæmundardóttir með 10 stig hvor. Hjá Ármann var Hjaltey Sigurðardóttir með 15 stig og Rósa Ragnarsdóttir með 10 stig.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024