Poweradebikarinn: Njarðvíkingar í undanúrslit
Njarðvíkingar báru sigurorð af ÍR í 8-liða úrslitum Powerade bikarkeppninnar í körfuknattleik í kvöld, 87-80. Þeir munu því mæta Snæfelli í undanúrslitum í Laugardalshöll nk. fimmtudag.
Leikurinn í Ljónagryfjunni í kvöld var ansi skemmtilegur þar sem heimamenn höfðu þó frumkvæðið nær allan leikinn. Staðan var 23-22 eftir fyrsta leikhluta og var jafnt í hálfleik, 39-39 eftir að ÍR skoraði síðustu sjö stig háfleiksins.
Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik þar sem Njarðvíkingar héldu frumkvæðinu en ÍR héldu sér inni í leiknum með því að hitta vel fyrir utan.
Undir lokin virtist sem heimamenn ætluðu að klára leikinn er þriggja stiga karfa frá Brenton Birmingham kom þeim í 9 stiga forskot, en Breiðhyltingar breyttu stöðunni þá í 83-80 með góðum þriggja stiga körfum og virtust til alls líklegir. Allt kom þó fyrir ekki og Njarðvíkingar tóku völdin og unnu góðan sigur.
Nýr leikmaður Njarðvíkinga, Chuck Long átti afar góðan leik, var maður leiksins með 25 stig og frábæra skotnýtingu, 6/8 í 2ja og 4/7 í 3ja. Hann tók auk þess 9 fráköst og lofar góðu fyrir framhaldið.
Þess má geta að i hinum undanúrslitaleiknum mætast KR og Skallagrímur, og verða Njarðvíkingar því einu fulltrúar Suðurnesjanna í undanúrslitunum, Hinum fjórum fræknu.
VF-mynd/Þorgils - Jóhann Árni Ólafsson með boltann fyrir Njarðvík.