Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Pílukast hluti af námi skólabarna í Grindavík
Mánudagur 22. ágúst 2016 kl. 09:24

Pílukast hluti af námi skólabarna í Grindavík

Fyrrum körfuboltagoðsögn þjálfar U-18 lið Íslands í pílu

Pílukast verður á meðal valáfanga sem börnum í efri bekkjum grunnskólans í Grindavík stendur til boða á haustönn sem hefst í vikunni. Það er Pétur Rúðrik Guðmundsson sem skipuleggur valáfangann í samstarfi við ÍPS (Íslenska pílukastsambandið) og mun hann kenna börnum allt sem skiptir máli í pílukasti. 

Pétur segir frábært að skólinn í Grindavík skuli bjóða upp á þennan möguleika í námi. Börn hafi ekki aðeins gaman af pílukasti heldur gagnist það þeim afskaplega vel bæði í námi og hverju öðru sem þau taka sér fyrir hendur. „Í pílukasti þurfa börnin að læra að leggja saman og draga frá í huganum,“ segir hann og bætir við að auk kennslu í pílukasti munu börnin læra hugarþjálfun en það gerir þeim kleift að einbeita sér undir álagi. Pétur segir þá þjálfun koma sér vel á lífsleiðinni, ekki síst þegar börnin þreyta próf í skólum.

ÍPS stóð fyrir flottri kynningu á pílukasti á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina og vakti það mikla lukku mótsgesta á öllum aldri, ekki síst barna.

Börnin leika sér og læra að reikna

Pétur, sem er búsettur í Grindavík, hefur lengi spilað pílukast sér til gamans en fá misseri eru síðan hann tók greinina alvarlega. Hann þakkar það áhuga 12 ára sonar síns á pílukasti. „Hann kom til mín einn daginn og bað mig um að setja upp píluspjald og þá kom í ljós að hann hafði verið að kasta pílu með afa sínum. Í framhaldi af því fórum við að æfa okkur saman. Þar sem ekki eru mót í dag fyrir unglinga, þá hefur hann verið að mæta í mót með mér. Nú gefur hann okkur eldri ekkert eftir og er orðinn mjög góður í hugarreikningi,“ segir Pétur.

Mikið hefur verið að gera hjá Íslenska pílukastsambandinu upp á síðkastið. Pétur var nú í ágúst ráðinn landsliðsþjálfari U-18 liðsins í pílukasti næstu tvö árin. Sem þjálfari mun hann í samstarfið við ÍPS skipuleggja keppnir og halda æfingar í pílukasti á Akureyri, Reykjavík, Grindavík og í Reykjanesbæ þar sem pílukast á sér sterkar rætur. Hann mun jafnframt standa fyrir æfingum annars staðar á landinu ef áhugi er fyrir hendi.

Um Pílukastssambandið

Íslenska Pílukastsambandið var stofnað árið 1985 og er það aðildarfélagi að heimssambandinu í pílukasti (World Darts Federation). Það er landssamband pílukastara á Íslandi og standa að því fimm aðildarfélög. Félagsmenn eru um 180 og fjölgar þeim ört. ÍPS velur og sendir landslið á Norðurlandamót, Evrópumót og heimsmeistaramót. Á næsta ári stefnir ÍPS að senda landslið U-18 á Evrópumót ungmenna í Svíþjóð. ÍPS heldur opið alþjóðlegt mót einu sinni á ári. Íslandsmót hafa verið fimm á hverju ári og með tilkomu U-18 verða þau sex. Íslandsmót U-18 verður 17. desember næstkomandi í Reykjanesbæ. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024