Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Petrúnella til Njarðvíkur
Föstudagur 12. nóvember 2004 kl. 00:09

Petrúnella til Njarðvíkur

Körfuknattleikskonan Petrúnella Skúladóttir úr Grindavík hefur ákveðið að ganga til liðs við Njarðvík.
Hún staðfesti þetta í samtali við Víkurfréttir fyrr í dag og kvað ástæðuna vera að hún byggi í Njarðvík og hefði haft hug á að skipta í nokkurn tíma.
„Njarðvíkingar eru með ungt og efnilegt lið og ég er viss um að þetta verður mjög gaman.“
Petrúnella, sem er 19 ára gömul, hefur leikið með meistaraflokki Grindavíkur síðustu fimm ár en hefur ekki fengið að spila mikið í vetur.
Agnar Mar Gunnarsson, þjálfari Njarðvíkur sagðist ánægður með liðsaukann. „Við erum með lítinn hóp þannig að þegar leikmaður í svona gæðaflokki kemur til okkar er það alger snilld.“

Petrúnella mun að öllum líkindum fá leikheimild með Njarðvík eftir um mánuð.

Njarðvíkingar eru auk þess að bíða eftir að fá til sín serbneska stúlku að nafni Vera Janjich, en sú er bakvörður 179 á hæð og hefur getið sér gott orð í heimalandi sínu og spilað nokkra leiki með yngri landsliðum.

Þannig er ljóst að Njarðvíkurstúlkur munu verða mun sterkari eftir því sem líða tekur á veturinn og láta fallspár sem vind um eyru þjóta.

VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024