Petrúnella: Erfiðustu meiðsli ferilsins
Grindvíkingar sjaldan verið sterkari
Fyrir mánuði síðan fékk Grindvíkingurinn Petrúnella Skúladóttir mikið höfuðhögg sem hefur haldið henni frá leik og starfi meira og minna síðan. Atvikið gerðist í leik gegn Stjörnunni og fékk Petrúnella heilahristing eftir þungt högg á gagnaugað. Hún vonast til þess að byrja að spila fljótlega.
„Þetta er allt að smella hjá okkur. Það hefur verið mikið um meiðsli og nýir leikmenn hafa verið að koma inn, þannig að þetta tekur bara sinn tíma,“ segir Petrúnella. Hún er nokkuð sátt við gengi liðsins en telur það þó eiga talsvert inni. „Ég hef engar áhyggjur af framhaldinu, við verðum alveg þarna á toppnum. Við höfum alla burði til þess að gera atlögu að þessum titlum sem eru í boði.“
Petrúnella segir liðið afar vel mannað og telur að Grindvíkingar hafi á að skipa einhverjum sterkasta hóp sem hún hefur spilað með. „Það er alltaf gaman að spila með góðu liði og það heldur manni í þessu, að eiga möguleika á þessum titlum sem eru í boði. Manni langar bara að standa sig fyrir liðið og svo er einnig farið að síga á seinni hlutann á ferlinum.“ Petrúnella er þó rétt orðin þrítug og virðist vera í feikilega góðu formi þetta tímabilið. Hún er meðal efstu kvenna í öllum helstu tölfræðiþáttum Domino’s deildarinnar og leiðir deildina í stolnum boltum.
Mikil ógleði, svimi og höfuðverkur
Sökum meiðslanna missti Petrúnella af landsleikjum Íslands gegn Slóvakíu og Ungverjalandi. Hún vonast til þess að fá grænt ljós á að spila fljótlega en segir erfitt að glíma við meiðsli af þessu tagi.
„Ég er með stanslausan höfuðverk og þarf að bryðja verkjatöflur. Ég ætla á næstunni að prófa hugleiðslu og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð því ég má í rauninni ekkert hreyfa mig. Þetta eru erfiðustu meiðsli sem ég hef þurft að glíma við. Mikil ógleði, svimi og höfuðverkur,“ segir þessi mikli baráttujaxl. Hún segir það taka á andlegu hliðina að geta ekki verið með. Oft langi hana til þess að skreppa á æfingu eða spila.
„Manni finnst ekkert vera að sér þannig séð, að maður gæti harkað þetta af sér. Það er bara of hættulegt þegar svona meiðsli eru annars vegar. Þetta er ekki bara körfuboltinn sem um ræðir, maður á fjölskyldu þannig að maður þarf að passa sig.“
Grindvíkingar eru í þriðja sæti deildarinnar en þær sigruðu Stjörnukonur í síðasta leik sínum. Næsti leikur liðsins er svo gegn sterku Haukaliði þann 12 desember.