Pepsi deildinni lokið
Grindvíkingar náðu í stig en Keflvíkingar töpuðu stórt
Keflvíkingar fóru fýluferð í Vesturbæinn í gær en þar máttu þeir horfa upp á 3-0 ósigur sinna manna í lokaumferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Keflvíkingar skoruðu sjálfsmark snemma leiks en hin mörkin hjá KR-ingum komu svo í seinni hálfleik þrátt fyrir að þeir röndóttu hafi misst leikmann af velli með rautt spjald í lok fyrri hálfleiks.
Keflvíkingar enduði tímabilið ekkert sérstaklega vel og höfnuðu í 9. sæti með 27 stig.
Grindvíkingar sem voru hins vegar fallnir fyrir nokkru síðan léku síðasta leik sinn í Pepsi-deildinni gegn Fylki. Þar urðu lokatölur 2-2 þar sem Axel Freyr Hilmarsson kom Grindvíkingum yfir eftir klukkutíma leik en Fylkismenn náðu að svara með tveimur mörkum. Hafþór Ægir Vilhjálmsson náði þó að bjarga stigi fyrir Suðurnesjamenn með því að skora úr aukaspyrnu á síðustu andartökum leiksins.