Páll Axel Vilbergsson Íþróttamaður Grindavíkur 2006
Körfuknattleiksmaðurinn Páll Axel Vilbergsson var í kvöld útnefndur Íþróttamaður Grindavíkur árið 2006. Knattspyrnumaðurinn Óðinn Árnason var annar og körfuknattleikskonan Jovana Stefánsdóttir var þriðja í valinu.
Páll Axel var annar í kjörinu árið 2005 þegar knattspyrnumaðurinn Paul McShane var Íþróttamaður Grindavíkur en árið 2004 var Páll Axel einnig útnefndur Íþróttamaður Grindavíkur.
Í stuttu spjalli sagði Páll Axel, sem nú er kjörinn íþróttamaður ársins í þriðja sinn á sínum ferli, að eftirminnilegast frá síðasta ári væri að verða bikarmeistari með félögum sínum í meistaraflokki. ,,Ég er ákaflega stoltur yfir þessum titli núna og hef sjaldan verið eins stoltur á ævinni. Það sem stendur upp úr á síðasta ári er bikarmeistaratitillinn með meistaraflokki. Einnig er tímabilið í sumar með landsliðinu mjög eftirminnilegt þó svo að gengi liðsins hafi ekki verið eftir væntingum. Svo er náttúrulega ógleymanlegt að verða Íslands- og Bikarmeistarar með 10 flokki stúlkna og ég er mjög stoltur af stelpunum að ná þessum frábæra árangri undir minni stjórn,” sagði Páll Axel í sigurvímu eftir að hafa hreppt þennan eftirsótta titil.
Gunnlaugur Hreinsson, formaður UMFG, setti kjörið sem haldið var í Saltfisksetrinu.
Í ræðu Gunnlaugs kom fram að fjöldi iðkenda íþrótta í Grindavík hefur aldrei verið meiri og vakti sérstaka athygli að sundið er orðin stór deild innan UMFG með 90 iðkendur á síðasta ári.
Ólafur Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkur, lagði áherslu á mikilvægi íþrótta og að fá sveitarfélög leggðu jafn mikið til íþróttamála og Grindavík.
Veitt voru verðlaun til þeirra sem tilnefnd voru til Íþróttamanns ársins:
Óðinn Árnason, Jóhann Þórhallsson og Gerður Björg Jónasdóttir fyrir knattspyrnu,
Páll Axel Vilbergsson, Þorleifur Ólafsson og Jovana Stefánsdóttir fyrir körfubolta,
Gunnlaugur Sævarsson og Hávarður Gunnarsson fyrir golf,
Jóhann Aðalgeirsson fyrir knattspyrnu (G.G),
Einar Jón Sveinsson júdó,
Jórmundur Kristinsson fyrir sund og Guðjón Hauksson fyrir pílu.
Afrekssjóður Grindavíkurbæjar og UMFG veitti einnig viðurkenningar fyrir fyrsta landsleik en það voru þau Ólafur Ólafsson og Lilja Ósk Sigmarsdóttir sem spiluðu sína fyrstu landsleiki í körfubolta á árinu.
Elínborg Ingvarsdóttir og Kristín Karlsdóttir spiluðu sína fyrstu landsleiki í knattspyrnu á árinu og fengu þær einnig viðurkenningu. Hin fjölhæfa Alma Garðarsdóttir spilaði einnig landsleik í knattspyrnu á árinu en hún lék sinn fyrsta landsleik í körfubolta í fyrra.
Hvatningarverðlaun afrekssjóðs Grindavíkur og UMFG fengu Viktor Gunnarsson (júdó) og Erla Sif Arnardóttir (sund), bæði ungir og efnilegir íþróttamenn.
Körfuboltastelpurnar í 10 flokki kvenna (Íslands- og bikarmeistarar) og minnibolta kvenna (Íslandsmeistarar) og fótboltastelpurnar í 3 flokki kvenna (Íslandsmeistarar innanhús) fengu viðurkenningar fyrir árangurinn á árinu ásamt meistaraflokki karla sem urðu bikarmeistarar á síðasta ári.
VF-myndir/ Þorsteinn G. Kristjánsson