Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Páll Axel svellkaldur og kláraði Hauka
Föstudagur 24. febrúar 2012 kl. 00:04

Páll Axel svellkaldur og kláraði Hauka



Tvær sekúndur eftir, tvíframlengt, og hver á þá að vera með boltann í höndunum, vitaskuld Páll Axel Vilbergsson og þannig var það í kvöld þegar topplið Grindavíkur lenti í heljarinnar basli með Hauka sem berjast með kjafti og klóm fyrir tilverurétti sínum í deild þeirra bestu. Páli brást ekki bogalistin í hægra horninu eftir myndarlega stoðsendingu frá Ólafi Ólafssyni og Grindavík kláraði Hauka 93-94 í frábærum spennuslag. Haukar voru oft í kjöraðstöðu til að gera út um leikinn en Grindvíkingar héldu sjó og styrktu stöðu sína á toppnum og fátt ef nokkuð sem bendir til annars en að liðið landi deildarmeistaratitlinum af miklu öryggi.

Grindvíkingar urðu fyrri til þess að láta sverfa til stáls í Schenkerhöllinni og komust í 0-5 gegn Haukum sem voru reyndar fljótir upp á tærnar þegar Hayward Fain fór að láta til sín taka. Þrír þristar frá kappanum með skömmu millibili breyttu stöðunni snöggtum í 9-5 fyrir Hauka og síðar í 16-8. Vörn heimamanna var góð framan af fyrsta leikhluta og topplið Grindavíkur lyktaði af hugarfari eins og þeir væru að eltast við einhvern skyldusigur. Fain var aftur á ferðinni þegar fjórar sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta og kom Haukum í 25-16 með stökkskoti í teignum og urðu það lokatölur í fyrsta leikhluta.

Hayward Fain var ekki hættur því í upphafi annars leikhluta setti hann þrist um leið og skotklukkan rann sitt skeið og Haukar leiddu 28-18. Grindvíkingar hertu tökin í vörninni, tóku fast á Haukum sem urðu smeykir fyrir vikið. Hægt og sígandi fóru Grindvíkingar að nálgast þar sem Giordan Watson fór fyrir gestunum og jafnaði kappinn stöðuna í 34-34 þegar þrjár og hálf mínúta voru til hálfleiks.

Christopher Smith varð lítið ágengt í teignum og eftir næstum 18 mínútna leik var hann bara búinn að hnoða niður einu teigskoti af 6 fyrir Hauka. Vörn toppliðsins var þétt en þó má vel setja stór spurningamerki við tregðu dómara í fyrri hálfleik til þess að flauta villu á J´Nathan Bullock sem fékk að ganga nokkrum sinnum ansi vasklega fram án afleiðinga.

Haukar náðu forystunni að nýju þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik en kæruleysi þeirra í vörninni gerði það að verkum að Giordan Watson fann Jóhann Árn Ólafsson einn og óvaldaðan í hægra horninu og Jóhann skellti niður flautuþrist fyrir Grindavík sem leiddi 40-42 í hálfleik.

Hayward Fain var með 21 stig og 4 fráköst hjá Haukum í hálfleik en atkvæðamestur í liði Grindavíkur var Giordan Watson með 14 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.

Varnarleikur, pústrar og misgáfulegar sóknir voru á oddinum í þriðja leikhluta og fyrir vikið var lítið skorað. Chris Smith var enn í basli í teignum, fékk lítið fyrir sóknartilburði sína og nýtingin því með lakara móti. Harkan skyggði klárlega á gæðin í leikhlutanum en Emil Barja kom Haukum í 49-48 með körfu í Grindavíkurteignum um leið og skotklukkan rann út.

Grindvíkingurinn Helgi Björn Einarsson barðist vel fyrir Hauka í kvöld enda að leika gegn uppeldisfélagi sínu Grindavík. Haukur Óskarsson setti þungavigtarþrist fyrir Hauka þegar 12 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta en gestirnir brunuðu yfir, fundu Pál Axel sem minnkaði muninn í 55-54 með teigskoti um leið og þriðja leikhluta lauk.

Í fjórða leikhluta fóru dómarar leiksins að hemja framgöngu Bullocks sem fékk m.a. dæmda á sig óíþróttamannslega villu og þær urðu nokkrar í leikhlutanum. Þorleifur Ólafsson tók fjögurra stiga rispu fyrir toppliðið og jafnaði 58-58 en Haukar slitu sig frá að nýju 64-58 þar sem Christopher Smith kom inn með látum af Haukabekknum og 6.50mín. til leiksloka.

Haukar náðu 66-58 forystu en þá kom 2-9 kafli hjá Grindavík og staðan 68-67 þegar fjórar mínútur voru eftir, sveiflurnar gríðarlegar og baráttan mikil. Hrollur fór um Hafnfirðinga þar sem Grindavík komst í 71-74 eftir körfu frá Sigurði G. Þorsteinssyni en Haukar komust í 75-74 eftir gegnumbrot hjá Hayward Fain þegar 18,9 sekúndur voru eftir. Jóhann Árni Ólafsson gerði næstu Grindavíkurstig og staðan 75-76. Næstu tíu mínútur eða svo gætu mögulega reynst Haukum afar dýrkeyptar því hér fengu þeir mýgrút af færum til að gera út um Grindavík.

9,8 sekúndur eftir go Hayward Fain á vítalínunni, hann hitti aðeins úr öðru vítinu og staðan því 76-76. Alik Joseph-Pauline stelur svo boltanum af Giordan Watson í næstu Grindavíkursókn og gestirnir brjóta vitaskuld strax á Pauline sem hélt á góðgerðarlínuna, eða svo hélt hann. Martraðarlínan varð það heillin, Pauline brenndi af báðum vítunum og framlengja varð leikinn. Þetta voru fyrstu vítaskot kappans í leiknum en kjörið tækifæri til að fara langt með að landa sigri. Skot frá eigin vallarhelmingi Grindavíkur geigaði eftir frákast hjá J´Nathan Bullock og því varð að framlengja.

Hayward Fain sýningin hófst í framlengingunni, kappinn skoraði að vild en Grindvíkingar náðu alltaf að svara. Fain kom Haukum í 86-83 þegar 1.15mín voru eftir og Haukar með pálmann í höndunum… eða svo héldu flestir. Ólafur Ólafsson vippaði sér þá upp í þrist og jafnaði metin þegar mínúta var eftir af framlengingunni. Lokamínútan var æsispennandi en þar fengu Grindvíkingar erfiðan þrist til að klára leikinn sem vildi ekki niður og framlengt að nýju og ekki að sjá að annað liðið væri á toppnum og hitt í fallsæti.

Haukar fengu heila mínútu í sókn í upphafi annarar framlengingar, tvö sóknarfráköst í röð og eftir það síðara fékk Emil Barja högg á andlitið og fór á vítalínuna, breytti stöðunni í 87-86 fyrir Hauka en fór svo af velli þjáður í andliti.

Einu stigin í þessari framlengingu virtust koma af vítalínunni en Christopher Smith fór að láta til sín taka og kom Haukum í 91-88 þegar 1.40mín. voru eftir. Ryan Pettinella minnkaði muninn í 91-90 en aftur slitu Haukar sig frá 93-89 og 20 sekúndur til leiksloka þegar Smith skorar fyrir Hauka eftir sóknarfrákast.

Grindavík: Giordan Watson 25/6 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/8 fráköst/3 varin skot, J'Nathan Bullock 13/16 fráköst, Ryan Pettinella 10/15 fráköst/6 varin skot, Páll Axel Vilbergsson 8, Ólafur Ólafsson 7/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5, Björn Steinar Brynjólfsson 4, Ómar Örn Sævarsson 4, Þorleifur Ólafsson 4, Þorsteinn Finnbogason 0, Ármann Vilbergsson 0.

Karfan.is sá um umfjöllun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024