Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Páll Axel og Sólveig best í Grindavík
Fimmtudagur 22. apríl 2004 kl. 17:17

Páll Axel og Sólveig best í Grindavík

Lokahóf körfuknattleiksdeildar Grindavíkur var haldið í Festi í gær þar sem mikið var um dýrðir og leikmenn og aðrir skemmtu sér langt fram á nótt.

Þar voru leikmenn heiðraðir fyrir afrek sín í vetur en bæði karla- og kvennaliðin komust í undanúrslit í Íslandsmótinu.
Páll Axel Vilbergsson og Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir voru útnefnd leikmenn ársins og kom það engum á óvart. Páll Axel varð á dögunum sama heiðurs aðnjótandi á lokahófi KKÍ eftir frábært tímabil og Sólveig Helga var valin í lið ársins í kvennadeildinni eftir að hafa borið liðið uppi lengi vel í vetur.

Ólöf Helga Pálsdóttir hlaut viðurkenningu sem efnilegasti leikmaðurinn hjá konunum, Erna Rún Magnúsdóttir var valin besti varnarmaðurinn og Guðrún Ósk Guðmundsdóttir var besta vítaskyttan.

Hjá körlum þótti Davíð Páll Hermannsson hafa sýnt mestar framfarir, en Pétur R. Guðmundsson hlaut sérstök verðlaun fyrir frammistöðu sína í úrslitakeppninni. Þá var Eggert Ólafsson útnefndur jákvæðasti leikmaðurinn.

Við þetta tækifæri var Guðmundur Bragason kvaddur formlega, en þessi sterki leikmaður hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir glæsilegan feril sem spannar rúmlega tvo áratugi.
Guðmundur hefur tekið fleiri fráköst en nokkur annar leikmaður í efstu deild frá upphafi og er einnig í hópi þeirra leikmanna sem hafa skorað mest, varið flest skot, stolið flestum boltum og svo mætti lengi telja. Guðmundur hefur einnig leikið 169 landsleiki fyrir Íslands hönd, eða fleiri en nokkur annar.

Mynd: Verðlaunahafar kvöldsins, af umfg.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024